Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Heyhirðingin

Úr Wikiheimild

Einu sinni átti Sæmundur fróði mikið af þurru heyi undir og var mjög rigningalegt. Hann biður því allt fólkið að reyna að ná heyinu undan rigningunni. Kerling ein var þar mjög gömul hjá honum í Odda; prestur gengur til hennar og biður hana að reyna að haltra út á túnið og reyna til að raka dreifar. Hún segist skuli reyna það; hún tekur þá hrífu sína og bindur á endann á henni hettuna sem hún hafði á höfðinu og sköktar út á túnið, en segir að Sæmundur skuli vera í garðinum og taka móti heyinu, því vinnumennirnir verði ekki svo lengi að binda og bera heim. Prestur segist skuli gjöra það og það muni vera bezt. Kerling rekur hrífuendann undir baggana og segir: „Upp í garð til Sæmundar“ og þá fóru baggarnir upp til Sæmundar, og segir Sæmundur þá við kölska og hans ára að nú sé þörf að herða sig. Og að skömmum tíma liðnum var allt heyið komið í garð og komst allt undan rigningu. Á eftir segir Sæmundur við kerlingu: „Eitthvað kannt þú Þórhildur mín.“ Hún segir: „Það er nú lítið; það er nú mestallt gleymt sem ég kunni í ungdæminu.“