Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hildur á Mógilsá

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hildur á Mógilsá

Hildur hét kerling ein á Mógilsá og var þar hjá tengdasyni sínum er Guðmundur hét. Hann reri suður í Hraunum er þessi atburður gjörðist. Tengdamóðir hans var heldur í nöp við hann og það svo að einn góðan veðurdag í heiðríkju og logni er öll skip voru róin lagði kerling á stað gangandi við tvær hækjur fyrir elli sakir upp á Esjuna sem þar er fyrir ofan. En er hún kom upp á Esjuna þandi hún út faldtraf sitt á hækjum sínum. Skall þá á ofsaveður svo mörg skip fórust, en Guðmundur tengdasonur hennar komst af.

Þessi Hildarbylur hefir orðið á árunum 1780 til 1794 því Snorri Jónsson langafi minn var þá búandi á Lambastöðum er þetta var. Var hann einn með öðrum á sjó. Heyrðu þeir undarlega hvellan hvin í norðri. Hélt hann þá að landi það bráðasta. Varð þá hvert skip að róa heilt sem horfði hvað sem fyrir varð, því ekki varð hið minnsta beitt. Reri þá eitt skip yfir Naustarif. Þetta var um flóðið. Sagði Snorri hann myndi ekki eftir öðru veðri er eins fljótt kæmi.