Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hjallinn á Núpi

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Hjallinn á Núpi

Núpur heitir einn bær í Laxárdal. Hjalli einn er upp undan bænum og lítið utar en bærinn. Það er æði hár hamar hrísi vaxinn og er þar gott hrísrif. Fjallvættur býr í hjallanum og er gott að koma sér vel við hana. Hún á hrísrif allt í hjallanum og má eigi rífa þar frá henni. Fyrir skömmu bjó kona ein á Núpi. Þykir hún vera margkunnug, en ei er hún þó göldrótt kölluð. Hún kom sér vel við vættinn í hjallanum, og þykir það valda því að hún hefur alltaf nóg fyrir sig að leggja og er hún þó fyrir löngu örvasa orðin. Bóndinn sem nú [1847?] býr á Núpi hefur látið rífa hrís á hjallanum. En fyrir nokkrum árum hefur hann fengið sjúkleika nokkurn ókennilegan og hefur enn eigi læknaður orðið, en því veldur hjallavætturin.