Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hold mitt líður nú hryggð og kvöl

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Hold mitt líður nú hrygð og kvöl“

Maður var einu sinni á ferð; áði á árbakka. Dreymdi hann þá að sagt var nálægt honum:

„Hold mitt líður nú hryggð og kvöl.“

Við það vaknaði hann, sá engan, sofnaði aftur og dreymdi enn að sagt var:

„Hérvist mannleg er lítil dvöl.“

Vaknaði hann, en sofnar aftur:

„Líkaminn sofi sætt með frið.“

Vaknar hann enn, litast um, en sá engan; sofnar því aftur og dreymir enn að sagt er:

„Sálin í Kristi vakni við.“[1]

Við það vaknar hann og sér dauðan mann bera niður eftir straumnum.

  1. Þetta er nærri orðrétt versið 3 í sálminum: „Jesús frelsari fólks á jörð.“ [Hdr.]