Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Illugi smiður

Úr Wikiheimild

Það er sagt um Illuga þenna sem var kallaður smiður af því hann smíðaði allt sem smíða þurfti í Skálholti á dögum Finns biskups og þar að auki mörg skip að hann hafi sagt fyrir um þau hvernig þau mundu lánast. Illugi smíðaði og skip fyrir Magnús lögmann Ólafsson á Meðalfelli; var það eitt hið þægasta skip og hægasta. Þegar hann hafði lokið við það sagði hann: „Það verður mönnunum að kenna ef þetta skip ferst á sjó og þó mun það farast.“ Einn dag átti að fara með flutning á því suður í Reykjavík; en þá varð því með engu móti ýtt fyrr en mannsöfnuður var gerður að því. Gekk það þá seinast svo hart fram að varla varð stöðvað. Var svo farið á stað með farminn, en aldrei spurðist til þess skips síðan.

Illugi vildi ekki smíða skip úr öðrum við en hann hafði sjálfur valið. Einu sinni átti hann að smíða skip úr vönduðum við, eikarvið. En þegar hann leit á efnið sagði hann: „Ekki vil ég blóðeik þessa“ – og var ófáanlegur til að smíða úr því efni. Þá var fenginn til annar smiður og smíðaði hann gott skip og traust úr efninu sama, en það fórst í fyrsta róðri. – Þegar Illugi hafði lokið við seinasta skipið sem hann smíðaði er sagt hann hafi sagt: „Þar hef ég smíðað manndrápsbolla enda er ég nú feigur.“