Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Jón á Berunesi

Úr Wikiheimild

Eftir þetta þá Jón vóx upp[1] fór að bera á fjölfræði hans, skáldskap, og þótti kraftur fylgja. Eitt sinn átti að hýða hann, ég man ekki fyrir hvað. Alexander hét böðullinn; Jón Þorláksson var þá sýslumaður. En þegar þetta átti að gilda og böðullinn reiddi upp vöndinn kastaði Jón fram stöku þessari:

„Alexander fjölfundinn,
forblindur í syndum,
vill granda, grályndur
gaur, kundi, níðhundur
........
........
hér standi blýbundinn,
ber vönd í tveim höndum.“

Við þetta brá Alexander svo að hann stóð með uppreiddan vöndinn, stirður sem tré og varð aldrei samur síðan. En ekki varð meira af hýðingu Jóns.

Heyrt hef ég þess getið að eitt sinn vóru þeir á ferð á fjallvegi einum, Jón sýslumaður og hann. Lenti í kappræðu millum þeirra; ekki hef ég heyrt út af hvörju, en báðir reiddust. Þá sagði Jón:

„Fimmtán palla í fúna jörð
fjandinn dragi þig niður.“

Í sama bili sprakk jörðin sundur undir hesti sýslumanns; hann varð hræddur við þetta og bað hann í allra krafta nafni að bæta úr þessu. Kastaði hann þá fram nokkrum stökum sem ég hef ekki heyrt.

Þá hann gekk með björgum átti hann að kalla á hamrabúa og jafnvel mana þá til sín. Fleira man ég ekki að segja af Jóni á Berunesi.

Hann kvað rímur og ýmislegt. Séð hef ég rímur hans af Trójumannabardaga, en fleira ekki.

  1. Hans er áður getið, sjá: Íma álfastúlka.