Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Jón Bjarnason á Presthólum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Jón Bjarnason á Presthólum

Þegar Jón Bjarnason var prestur á Presthólum kom þar Hólabiskup. Jón prestur var þá nýlega orðinn prestur og kominn þar. Biskup tjaldaði þar nokkurn spöl frá bænum; en þegar setzt var að heima á bænum gekk biskup heim og gekk í kringum bæinn og svo til manna sinna aftur. Þá mælti hann: „Víst er það að hér er kominn einhver sá maður sem mikið er merkilegur því þegar ég kom hér seinast var djöfull hér í hverri krá, úti og inni, en nú sé ég engan.“ Prestur sá sem þar var næst undan Jóni þessum hefur líklega verið Oddur sem þar var þegar Jón prestur var þar í sveit upp alinn. Oddur var galdramaður og þókti illur maður.[1]

  1. Jón var síðast prestur á Presthólum, lét af prestsskap 1625 (d. 1634), en óvíst hvenær hann fékk brauðið (fyrirrennari hans fékk brauðið 1592). Biskup á Hólum hefur þá verið Guðbrandur Þorláksson (d. 1627). Á undan Jón Bjarnasyni var prestur á Presthólum Jón Jónsson, en þar á undan Oddur Jónsson (1564-1592).