Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Jón lærði og Tyrkjaskipið
Jón lærði og Tyrkjaskipið
Einu sinni kom herskip mikið að landi vestra. Lét það ófriðlega og lét ganga skothríð til að hræða fólk. Gjörðust menn þá hræddir mjög og leituðu til Jóns lærða er þá var þar vestra. Hann leit til skipsins og kvað vísu þessa:
- Hátt ber segl við húna
- á hesti öldutúna,
- ég hefi risting rúna,
- mig rankar við því núna.
Hann sagði að hver skyldi fara heim til sín og búa sig sem þeir hefðu bezt föng á, með skálmum og sveðjum, rétta upp þjó á ljáum og slá þau í tanga og setja sköft á og koma síðan að morgni dags á tiltekinn stað. Gjörðu menn svo sem hann lagði fyrir. Um nóttina var ofviðri mikið svo skipið rak upp og brotnaði. Þegar þeir komu í fjöruna lá víkingur einn þar í andláti af vosbúð og kulda, en svo var hann grimmur að hann beit þann í fótinn sem næst honum gekk. Sáu þeir mörg lík rekin upp og þekktu af búningnum að þetta voru Tyrkir. Þar sem rekinn var mestur höfðust þó nokkrir víkingar við er fræknastir voru og höfðu synt í land. Voru þeir þó þrekaðir mjög. Þeir skutu á landsmenn, en byssur þeirra kveiktu ekki því púðrið hafði blotnað. Veittu þá landsmenn þeim aðgöngu og drápu þá. Skiptu þeir síðan fé víkinga með sér, en illa launuðu þeir Jóni lærða liðveizlu hans.