Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kálfur og kölski

Úr Wikiheimild

Kálfur Einarsson hét prestur; hann var á Fellum í Sléttuhlíð. Kálfur lærði í Svartaskóla og eru margar frásagnir til um viturleik hans og kunnáttu og hvernig hann lét Kölska þjóna sér til hvers sem hann vildi. Var það í kaupmála þeirra prests og kölska að kölski ynni fyrir prest allt sem hann legði fyrir hann, en fengi Kálf að síðustu fyrir.

Stóð svo allan aldur Kálfs. Þegar Kálfur var gamall mjög tók hann sótt allþunga. En þegar hann kenndi sín að sú sótt mundi helsótt vera bað hann að nautkálfur einn væri látinn undir rúm sitt þar sem hann lá. Ekki sást að prestur bæri hræðslu fyrir dauða sínum. Þegar prestur sýndist langt leiddur kom kölski til hans og kvaðst nú kominn þegar til að sækja hann eins og skilmálar þeirra væru. Prestur brást ókunnuglega við og byrsti sig móti kölska. Tók kölski þá upp handskrift prests með blóði ritaða og bað hann við kannast. Prestur kvaðst svo gjöra mundi, leit á og mælti: „Þar stendur ekki Kálfur Einarsson, en hér er nú kálfurinn sem heitinn er,“ – og kippti kálfinum fram undan rúmi sínu. Sneyptist þá kölski og hvarf frá honum.