Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kölski ber á völl fyrir Hálfdan

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Kölski ber á völl fyrir Hálfdan

Hálfdan Einarsson eða Eldjárnsson prestur á Felli í Sléttuhlíð í Skagafjarðarsýslu hafði lært í Svartaskóla með Sæmundi fróða. Var hann fjölkunnugur mjög og gjörði marga samninga við kölska, en sveik hann jafnan á eftir. Einu sinni hét hann að gefa honum söfnuðinn sinn ef hann bæri á völl fyrir sig. Kölska þótti vel boðið og bar á völlinn. En þegar hann var búinn og fór að vitja kaupsins fékk prestur honum skyrsá og sagði að það væri sinn söfnuður. Reiddist þá kölski og ætlar að hefna sín á Hálfdani presti. Ber hann þá alla mykjuna af túninu fyrir kirkjudyrnar. Þegar Hálfdan sér það skipar hann kölska að bera alla mykjuna út á túnið aftur og vera búinn að því morguninn eftir og sleikja hana svo vel upp að ekkert verði eftir. Kölski mátti til að gjöra þetta og þegar presturinn kom á fætur næsta dag hafði kölski borið mykjuna út á völlinn og sleikt skál í helluna við kirkjudyrnar. Hellan liggur enn þar sem kirkjan var áður því hún hefur verið flutt úr stað síðan og sést lautin enn í dag í helluna. En í hefndarskyni gjörði nú kölski keldu eina mikla þvert yfir um veginn sem heim liggur að staðnum.