Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kölski mokar Oddafjósið

Úr Wikiheimild

Einn laugardag skipaði Sæmundur sínum þénustuanda fjós að moka í Odda hvar við sagt er að andinn reiðzt hafi. Árdegis á sunnudaginn vildi Sæmundur til tíða ganga; var þá allur fjóshaugurinn kominn heim á kirkjustéttina. (Fjósið er frá kirkjunni nú sem stendur hálft stadium.[1] Sæmundur prestur kallaði á andann og skipaði honum í reiði alla heimfærða myki burt að sleikja. Þótti presti hann seinn í verkinu og steytti við honum hendi sinni. Rak kölski þá niður hnefa sinn, ef so má kalla, á einn steininn og sjást enn merki til á þeim steini sem nú er fyrir stafstein í austurbæjardyrum í Odda og nafnkennt er hnúfafar skolla. En so lauk að andinn lét hauginn hverfa og að síðustu laust hann tungu sinni í steininn, og er enn með sama móti augsýnilega í stéttarsteininum fyrir austurbæjardyrunum í Odda þess merki fimm fingra djúpt.

Missögn: Sæmundur hafði skipað skolla að moka fjóshauginn. Hann setti hauginn fyrir kirkjudyrnar. So neyddi Sæmundur hann til að taka hauginn burt og sleikja helluna, sem haugurinn á lá, að síðustu, og skulu enn nú vera tunguförin í helluna[2] sem liggur fyrir dyrunum.

  1. [Stadium er lengdareining, því sem næst 185 m.]
  2. NB. Fyrir bæjardyrunum (nokkru norðar) liggur þessi steinn hálfur, vidi [ég sá hann] 1708. Það er ekki líkt tungufari, er þurða í steininn. [Árni Magnússon].