Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kerlingin á Núpi

Úr Wikiheimild

Á Núpi á Berufjarðarströnd bjó í fyrndinni bóndi einn og var mjög auðugur, einkum af gangandi fé. Ekki er getið hann hafi hjú haldið utan smala og kerlingu eina sem var mjög hrum orðin af elli þá saga þessi gjörðist. Á hverju hausti þá bóndi réttaði fé sínu lét hann kerlingu handleika hverja kind og sagði hún honum hvað feigt væri og óviljandi mundi fara á því ári, og trúði bóndi henni svo vel að hann skar það jafnan strax enda reyndist honum það svo áreiðanlega að aldrei missti hann eina kind að óvilja sínum. Eitt haust sem oftar réttar bóndi fé sínu og lætur hann eftir vanda kerlingu segja sér hvað hann skuli nú leggja frá. Þegar hún hafði farið höndum um allt féð segir hún: „Ein munt þú Grámaga af komast, en allt hitt féð mun farast, og gott er ef ekki fer meira.“ Síðan stumrast hún upp úr réttinni og heldur heimleiðis. Þessu trúir bóndi ekki og segir að nú sé hún orðin elliær enda muni hún eiga skammt eftir ólifað. Tekur hann af handahófi af fénu til að skera og þó með minna móti. Veturinn lagðist að með snjóa og storma, og alla jólaföstuna var haglaust svo fé hafði einungis fjörubeit, og hagaði henni svoleiðis að um flóðið varð að reka það frá sjónum því skerrif eitt lá þar undan bænum sem fór í kaf í flestum flóðum, en á því hafði féð mjög góða beit um fjörutímann. Á jóladaginn var kafaldsbylur svo að engri skepnu varð út beitt og lá nú fremur illa á bónda enda var hann spar á matgjöfum við hjú sín. Um kvöldið skánaði veðrið, heiddi loft og gjörði frost mikið, og vill nú svo vel til að það er fjörutími. Því drífur bóndi smalann til að beita fénu og standa yfir því á fjörunni, en sjálfur fer hann að kveikja ljós og skammta jólamatinn. Síðan sezt hann til snæðings, en smalinn er að róla úti við og er kaldur og svangur. Hann færir sig þá upp á baðstofugluggann, lítur inn um hann og sér að bóndi hefur mjög stórt og feitt sauðarrif í höndum og stýfir af því upp í sig. Þá segir smalinn: „Þykkt er á rifinu bóndi.“ „Það er ekki frá þér helvízkur,“ segir bóndi og vísar honum frá sér með illyrðum. Eftir nokkra stund kemur smalinn aftur á gluggann og segir: „Þynnir á rifinu bóndi.“ Þá er ekki getið hvað bóndi sagði, en smalinn má enn fara án þess honum væri beint nokkru. Eftir litla stund kemur hann í þriðja sinn og segir: „Allt féð er af rifinu bóndi.“ Þá fyrst skildi bóndi við hvaða rif smalinn átti og verður honum svo mikið um að hann æðir ofan að sjónum og sér þá féð vera að reka upp í fjöruna dautt og segja sumir að Grámaga væri þar ein lifandi í fjörunni og bóndi hafi þrívegis kastað henni út í sjóinn, en hún jafnan komizt á land aftur heil á hófi. En aðrir segja hún hafi hlaupið að leita sér eftir hrút og því undan þessum óförum stýrt. En þegar bóndi sá hvernig komið var fór hann heim og skar sig [á] háls, og rættist svo saga kerlingar.