Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kirkjugarður á nýársnótt

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Kirkjugarður á nýársnótt

Það er mælt að einu sinni hafi verið prestur sem hélt vinnumann þann er Ólafur hét. Hann hafði þann sið að hann fór á hvurri nýársnótt út í kirkjugarð og stóð þar sem hann sá yfir allan garðinn. Þar sá hann koma alla þá menn sem grafnir voru í garðinum allt árið um kring og leggjast niður og sagði hann engum frá þessu fyrri en einu sinni að hann sem oftar fór út í kirkjugarð; þá sá hann fyrst koma prestkonuna og leggjast á sinn stað og svo sá hann koma fáeina úr sókninni og leggjast niður og seinast sá hann einn mann koma og leit á hann og lagði sig niður eins og hinir. Hann þóktist þekkja hann, en gat þó ekki komið honum fyrir sig. Honum varð svo hverft við að hann þekkti ekki manninn að hann fór til prests og sagði honum upp alla söguna og spyr hvur þetta muni hafa verið. Prest grunar fljótt að þetta muni hafa verið hann sjálfur, en vill ekki segja honum það, En veturinn eftir á milli jóla og nýárs dó þessi maður nokkuð snögglega; þá sá prestur að allt stóð heima sem hann hafði sagt honum.