Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kolbeinn á Lokinhömrum og Kári

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Kolbeinn á Lokinhömrum og Kári

Þá átti Kári bú að Selárdal við Arnarfjörð er hér var komið sögunni; hafði hann þá tekið prestsvígslu, en trúin var ung í þann tíma og þótti mönnum sem hann væri ærið forn í skapi. Hann var afarmenni mikið og eigi dæll við að eiga og þótti hvervetna illt að etja við hann. Var hann kallaður Árum-Kári.

Þá bjó sá maður er Kolbeinn hét fyrir norðan Arnarfjörð gagnvart Selárdal að Lokinhömrum; er þar nærhæfis hálf önnur vika sævar (sjóar) á milli. Féll Kolbeinn í missætti við Kára og eltu þeir lengi grátt silfur, og þar kom að Kolbeinn safnaði liði, fór á skip og ætlaði að veita Kára heimsókn og drepa hann. En svo bar við að í þeirri ferð týndist skip Kolbeins á skeri því er síðan er kallað Kolbeinsboði. Þar fórust menn allir er með Kolbeini voru, og menn ætluðu Kolbein einnig hafa drukknað þar með skipverjum sínum. En er Árum-Kári kom ofan til sjóar mætti hann Kolbeini í fjöru og tókust þeir þar á; það varð Kára til fangaráðs að hann fór á bak Kolbeini og reif báðum höndum í skegg hans og reið honum á land upp; er þar sléttlendi mikið; heitir þar nú síðan Kolbeinsskeiði er hann reið honum hringskeið kringum sléttlendið og er það túnsummálið á bæ þeim er þar var síðan byggður og dregur nafn af skeiðinu og heitir Kolbeinsskeiði.

Eftir þessa reið var Kolbeinn allur og fluttur dauður heim að Selárdal með skipverjum þeim er upp ráku og voru þessir allir grafnir í einum reit norðan fram í kirkjugarði í Selárdal þar sem nú heitir Kolbeinsreitur, og var það lengi að eigi voru lík grafin í reit þessum. Þó er þess getið að nú á seinni tímum hafi þar grafizt upp eitt sinn ærna þykk og stórvaxin mannabein.