Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Lítil undirvísun um lærdóm Sæmundar fróða

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Lítil undirvísun um lærdóm Sæmundar fróða

Þeir i Þýzkalandi sem þar vísir eru plaga ávallt að hafa múskat og hvítalauk; það láta þeir lifa við svartabrauð og hafa á sér nótt og dag. En það á að vera óuppskorið múskat, heilt, því það verndar manninn við beinbroti. Og nær þetta allt saman er á sér borið þá hefur guð gefið því þá náttúru og manninum það meðal að það verndar hann frá galdri og beinbrotum (nema áhrínsorð valdi). Þeim veit ég ei lækning eður meðal. Þetta plaga þeir þýzku á sér að bera í Juppítersskóla (er vér köllum Svartaskóla). Þessi konst er ogsvo brúkuð í Noreg, í Finnmörk, því nær Finnar vilja mikið með galdri og seiði aðhafast þá er þeirra vísa að þeir á tilteknum tíma á nýjum tunglsaldri ganga sjö, níu, ellefu eður þrettán í einn hring og biðjast þar fyrir (ᴐ: eftir sinni vísu). Þá kemur þar andskotinn og tekur einn af þeim. Trúa þeir að sá sem fyrrgreind meðöl á sér ber hverfi ei. En nær sem einn er horfinn þá eru hinir sem eftir eru þegar bænheyrðir, en ei brúka þeir þessa konst nema í stærstu nauðsyn, þá þeim ekkert annað dugir.

Item skyldi maður ei í Jovis skóla ganga nema þetta á sér bæri. Því hafa þeir það fjórir eður sex, sem þangað fara, en ei hinn sjöundi. því þá er honum hætt að hann eftir verði, því oft verður þar einn eftir. Og er þeim þar ei sízt hætt, sem á móti dyrunum situr. Ei er þar altíð illt að læra, heldur má þar hver læra það hann vill, bæði andlegt og veraldlegt, illt og gott. Ei er þeim hent þangað að fara sem ekkert hafa áður lært. Ei er þaðan hlaupið þá hver vill, heldur er maður þar árið út, og viti hann þá sömu stund er hann inn gekk, þá má hann út ganga, en endranær ekki, til þess að líður annað árið og þriðja. Þangað ganga flestir um dægramót og á sá að ganga fyrstur út sem fyrst gekk inn, en hlutfall er gjört, fyrst um inngöngu þeirra, því sá er fyrstur gengur inn eður síðast út, þeim er hætt að hverfa. Ei er þar hent glámskyggnum því þar er ei bjartara en lesljóst um daginn; kvöld og nætur ef menn vaka loga þar vaxljós og er þar þó dimmt. Þar fá menn vel tilreiddan mat og drykk tvisvar á dag og einu sinni á nóttu ef menn vaka, en engin skepna sést þar; so og hafa þeir þar góðar sængur á manntal og hvað þeir þurfa, og hver liggur þar einn í rúmi. Þeir hafa bækur að lesa er þeir æskja, en ekkert má þaðan burtu bera nema hvað þeir sjálfir upp skrifa, og fá þeir hverki blek né pappír, en flest þó annað er þeir æskja. Sker það að þeir kaupa þá einn hlut hversu lítilsverðan fyrir hundraðfalt og er þá lagt á borðið nær fullvirði er komið. Þeir læra þar flestir arithmeticam og stundatal. Tímaglas má þar hafa, en ei stundaklukku né sigurverk, því svoddan er þar ekki liðið. Allir fara þangað vopnlausir og enginn hefur þar byssu. Þar eru luktar dyr meðan aðrir eru inni. Þar eru í senn fimm. sjö, níu, ellefu og ei fleiri. Það pláts er í norðurskógi nokkrum, en enginn gluggi á sem utan sést, dyr horfa í norður, þriggja daga ferð frá höfuðborginni; það hús stendur í jörð.

Sagt er að Sæmundur fróði er þangað gekk með stallbræðrurn sínum og varð þar eftir og annar til með honum er Christophor hét og nær þeir voru vel lærðir þá fóru þeir út – þá byrjaði Sæmundi eftir að ganga og segja menn hann hafi lagt yfirhöfn fulla af fötum á bak sér, en nær þeir út gengu var í Sæmund tekið; lét hann laust og fór svo út; var þá morgunn. Sæmundur tók skó þeirra beggja, fyllti með vatn og báru þeir þá vatnsfulla yfir höfði sér allan daginn fyrir eftirför. Þá hélt skólalýður að þeir hefðu í vatni drukknað. Annan dag fylltu þeir þá með sjó og fóru svo sem fyrr. Þá hélt skólalýður að vatn hefði fleytt þeim í sjó. Þriðja dag lét Sæmundur fylla skó þeirra með mold og jörð og gras yfir og báru þá á höfði sér. Þá kvað skólalýður þá vera á land rekna og jarðaða. Þá var úti um fyrirsátrið þegar þessir þrír dagar voru liðnir. Ei mundu allir svo hafa af komizt þó Sæmundur úr þrautum kæmist.