Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Laxnes

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Laxnes

Ofarlega í Mosfellsdal í Kjalarnesþingi stendur bær sá sem Laxnes heitir. Hann stendur á nyrðri bakka Köldukvíslar, en það er aðaláin í dalnum. Neðar og allskammt frá sjó stendur sá bær á nyrðri bakka sömu ár sem heitir Leirvogstunga. Á báðum þessum bæjum var í fyrndinni laxveiði mikil í Köldukvísl, en nú er hún aðeins í Leirvogstungu, en alls engin í Laxnesi, og er sú orsök til þess sem nú segir:

Í fornöld bjó sín kerling á hvorum bænum, Laxnesi og Leirvogstungu; þær voru fornar í skapi og fjölkunnugar báðar. Ann hvorug þeirra annari veiðinnar í Köldukvísl og seiddu laxinn hvor frá annari. Á endanum heituðust þær út af veiðinni og varð Leirvogstungukerlingin þeim mun drjúgari að hún gat séð svo um að enginn lax gengi framar upp fyrir Leirvogstunguland í Köldukvísl. Þessi álög hennar haldast enn í dag svo að engin laxveiði er ofar í Köldukvísl en fyrir Leirvogstungulandi.