Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Músarbyljir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Músarbyljir

Einn músarbylur er sagt að hafi orðið þegar Latínu-Bjarni dó er var nafntogaður galdramaður. Annar músarbylur átti að hafa orðið þegar Jón faðir Hnausa-Bjarna dó; hann bjó á Fossi í Staðarsveit og var sagt hann ætti flæðarmús er hann geymdi í hveitistokk. En þegar hann var að bana kominn lét hann fleygja stokknum með öllu saman í á eina hjá bænum sem Litla-Fura heitir. Átti þá músin að hafa brotizt úr stokknum og leitað til sjávar og æst hann ógurlega nóttina milli hins 8. og 9. janúarm. 1799 að stórskemmdir urðu á Suður- og Vesturlandi.

Það er mælt að Hnausa-Bjarni hafi sagt þegar menn voru að tala um hvílík ókjör hefðu gengið á þegar faðir hans dó að ekki mundi minna veður verða þegar hann dæi því Bjarni þóttist ekki minni kunnáttumaður en faðir hans. Þegar Bjarni Jónsson í Höskuldsey, hafnsögumaður í Stykkishólmi, frétti þessi ummæli nafna síns tók hann hann einu sinni er þeir voru á sjó saman, setti hann útbyrðis, hélt honum þar og lét hann smásökkva dýpra og dýpra og sagðist skyldi drekkja honum þar ef hann tæki ekki þessi orð sín aftur og sagði að hann lygi því að hann væri göldróttur. Hnausa-Bjarni var tregur að taka orð sín aftur þangað til fór að renna inn í eyrun á honum, þá át hann allt ofan í sig um galdur sinn og gjörningaveður, enda varð ekkert sögulegt við fráfall hans.