Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Mannshöfuðið

Úr Wikiheimild

Sagt er það frá Brandi að áður byggi hann í Laxárdal og hefði þá undir ábýlisjörð sína land undan Stóraskógi, en síðan er hann bjó í Skógi hafði hann hið sama land undir Skóg aftur. Eitt sinn var það að smali Brands sá inn um rifu þar Brandur var í húsi einu; sá hann þá Brand ljúka upp kistu og taka úr henni upp léreftsstranga mikinn, rakti hann sundur og tók nú mannshöfuð með miklu hári, setti á kné sér, kembdi því og greiddi vandlega, las síðan yfir því þulur sínar, er sveinninn fékk ei numið; varð það þá að manni heilum. Skipaði Brandur honum að fást við gest þann að garði fór. Vissi sveinninn ei um það meira því hvergi þorði hann að fara, en það þóttist hann vita að sending Brands hefði sigrað því inn kom hún aftur, og veitti Brandur henni sama umbúnað sem áður.