Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Og spríktu bölvuð

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Og spríktu bölvuð!“

Þegar Guðrún Gísladóttir var í Njarðvík – hér um bil 1759-1764 – var þar kerling ein hjá Þorsteini Hákonarsyni er henni þókti sumt undarlegt með; helzt það að flestir hlutir urðu að áhrínsorðum er hún mælti í reiði, svo sem einu sinni er slitnaði spuni hennar á snælduna hvað eftir annað sagði hún: „Og spríktu bölvuð!“ Var þá endi við enda á snældunni. Annað sinn datt hjá henni skóbót, þá segir kerling: „Farðu til fjandans!“ Skóbótin fannst ekki upp frá þessu þó leitað væri og eftir henni lýst með logandi ljósi. Guðrúnu var sagt að svo hefði oft orðið er hún mælti hermdarorðum eftir einhverjum hlut.