Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Páll lögmaður Vídalín

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Páll lögmaður Vídalín

Páll lögmaður Vídalín var fjölkunnugur. Er svo sagt að hann hafi haft 50 anda í þjónustu sinni; hjálpuðu þeir honum oft í málaferlum hans til að sjá út ráð mótstöðumanna sinna og komast fyrir þá. Stundum sendu mótstöðumenn hans honum sendingar, en hann tók þær allar og urðu þær að þjóna honum upp frá því. Hættast var hann einu sinni kominn á ferð í haustmyrkri. Sóttu þá að honum þrjár sendingar í einu, en svo lauk að hann tók þær allar. Kvað hann þá vísu þessa:

„Dimmt mér þótti Dals- við á,
dró af gaman að hálfu;
að mér sóttu þrjótar þá
þrír af Satans álfu.“

Ekki gjörði Páll öðrum mein. Þó er mælt hann hafi átt í erjum við prest sinn er sagan segir að verið hafi séra Halldór Hallsson; vildi hann fá Hólmfríðar dóttur Páls; en hann synjaði honum ráðahagsins. Gjörði Páll þá presti ýmsar glettur, reyndi til að glepja minni hans í stólnum og hafði biblíuna hjá sér í kirkjunni til þess að geta vitnað upp á prest ef hann færi með rangan lærdóm og haft hann svo af embætti. En prestur sá við honum svo ekki varð á honum haft og er mælt þeir hafi sætzt að lokum. Mælt er að Páll hafi sagt að enginn niðja sinna skyldi gjalda þess þó hann hefði verið fjölkunnugur því svo skyldi hann ganga frá öllu að börn sín þyrftu ekkert að óttast ef þau létu ekki heita eftir sér. Hólmfríður dóttir hans braut þó út af því, en Páll sonur hennar varð ekki langgæður því hann hengdi sig erlendis.