Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Pípan
Nú líður sumarið svo að eigi er getið að þeir nafnar ættist við. En er ganga skyldi um haustið kvaddi Jón hreppstjóri sveitarmenn til fjárleita. Var þá gengið á fjall og fé rekið ofan til byggðar og síðan til rétta. Þá var það eitt sinn á þeirri leið að Jón hreppstjóri kvað sig þyrsta mjög og lézt því mundu bregða sér heim á bæ einn er þar var skammt frá þeim og fá sér að drekka. Þar bjó vinkona Jóns á Hellu, forn í skapi og haldin meðallagi góðgjörn. Jón ríður nú heim á bæinn og hittir kerlingu að máli; hún fagnar honum vel. Hann biður hana gefa sér að drekka og lézt vera þyrstur mjög. Hún biður hann þá koma með sér í mjólkurhús, því hún kveðst ei hafa ílát fyrir hendi það er honum sé boðlegt. Hann gerir svo; fær hún honum þá pípu og biður hann drekka þar úr trogi. Hann kvað sér það vel líka og tók við pípunni og leit á; því næst blæs hann í pípuna; hleypur þá úr henni padda ein, ljót og illyrmisleg. Jón leggur nú frá sér pípuna og verður honum þá ljóð á munni:
- „Ég mun koma jafnt sem þú og Jón á Hellu
- fyrir guð í himnahöllu.
- Hvað er að gera sér skraf úr öllu?“
En svo er sagt að Jón á Hellu hefði áður keypt að kerlingu að freista ef hún fengi fyrirkomið Jóni í Ási með gjörningum sínum. Varð nú fátt um kveðjur með þeim Jóni í Ási og kerlingu; kvað hann henni myndi hollast að leita ei oftar við að bana sér því að þess myndi henni ei auðið verða. Skilja þau við svo búið og ríður Jón aftur til manna sinna og reka þeir nú safnið til réttar. Að loknum réttum reið Jón heim til Áss og var nú allt kyrrt og tíðindalaust milli þeira nafna um veturinn.