Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Prestsskapur Eiríks á Vestfjörðum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Prestsskapur Eiríks á Vestfjörðum

Um fyrra hluta af ævi Eiríks prests á Vogsósum eða um uppruna og uppvöxt hans ganga hér [þ. e. í Mýrdal] engar sögur. Það er fyrst um hann sagt að hann hafi gengið í Svartaskóla, en borið þó lítið á kunnáttu hans. En hins er getið að hann hafi verið góðmenni og mesti stillingarmaður. Ungur og ókvæntur er sagt hann hafi fengið brauð á Vestfjörðum (óvíst hvar) þar sem prestum hafi jafnan orðið klaksárt. Er svo sagt að hann hafi verið þar hjá fullorðnum bónda sem var hinn ríkasti í brauðinu, til húsa – og haft þar fæði og þjónustu. Kerlingar voru tvær á þessum bæ; önnur var skylduómagi, en hin niðursetningur og nýkomin. En er kom aðfangadagur jóla var allt fólk í starfi miklu, sumir í sendiferðum, en sumir í öðru starfi, en prestur einn á gangi og varð þá þess var að kerlingarnar voru einsamlar inni í baðstofu og voru að tala saman með því móti að sú kerlingin sem lengur hafði verið á bænum var mjög harmfull að biðja fyrir sér og tala um hvað hörmulegt það væri að geta ekki haft gleði um jólin eins og aðrir kristnir menn og væri það allt vondum mönnum að kenna. Niðursetningskerlingin spyr því hún sé með þessar harmatölur og hvaða ólukkutilfelli hún sjái fyrir. Þá svarar hin: „Það er auðséð að þú ert ókunnug hérna, og get ég þá sagt þér það að nú er verið að búa til veizlu, en þó mun eiga eins og vant er að sjá um að presturinn verði ekki ellidauður. Hefur til þess verið brúkaður sami maður og er hann mesta uppáhald hjónanna hérna, en er nú orðinn so ellihrumur að hann verður að ríða í söðli og er nú farinn maður til að sækja hann. Hann er orðlagður galdramaður og hefur allan sinn vísdóm úr bók einni sem hann ber á brjóstinu nótt og dag, og skilur hann þessa bók aldrei við sig. Nú þykir mér það hörmulegt ef að þessi prestur verður drepinn á hátíðinni, þetta góðmennið, þetta blessað ljós sem hann hefur sýnt sig að vera við alla eins síðan hann kom hér.“ Niðursetningskerlingin kvað þetta vera ljóta sögu ef hún rættist, en sagði þar hjá að betur kynni að takast til, enda kvaðst hún vilja óska þess. Þetta samtal kerlinganna heyrði prestur fullgjörla, en gerði ekki orð á því, heldur lézt hann vera að búa sig undir hátíðina. Um kvöldið fór fólk að drífa til veizlunnar og meðal annara gamall karl í söðli mjög hrumur. Hjónin fögnuðu gestum sínum, en móti karli þessum gengu þau bæði og leiddu hann milli sín inn í hús. Prestur veitti því nákvæma eftirtekt sem fram fór, en sér í lagi því hvar gamli karlinn svaf. Þegar fólk fór að hátta lét prestur sem hann háttaði að vanda sínum, en hann fór ei úr fötum, heldur fór hann á fætur undireins og allt var komið til rólegheita. Fór hann þá þangað sem gamli karlinn lá, því hann var einn sér í afviknum stað. Tók þá prestur fyrir kverkar karlinum og kyrkti hann, en tók bókina af brjósti hans og varðveitti sjálfur. Að morgni fannst karlinn dauður, en prestur gegndi sínum störfum. Sagt er að hjónin hafi harmað karlinn og einstöku boðsmenn, en aðrir er sagt að ekki hafi fengizt um það þó karlinn hrykki upp af.

Sagt er að skömmu eftir þetta hafi Eiríkur prestur farið að Vogsósum, en aldrei hafi hann sleppt fyrrnefndri bók, og þókti síðan bera miklu meira á kunnáttu hans, en þó hafi hann aldrei gjört öðrum illt með henni án þess hann ætti sín í að hefna.