Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Rúnir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Rúnir

Nú er að minnast á rúnirnar og greina fáein dæmi til þar sem þær hafa verið hafðar í galdri, bæði sami stafur margtekinn í heilum fylkingum eða heil orð og formálar ritaðir rúnastöfum. En sjaldgæft ætla ég að einn einstakur rúnastafur hafi verið hafður til galdra nema hafi það verið þessi:

Hefur hann stundum verið markaður á hestlendum, annaðhvort með tjöru eða klipptur á lendina og átti að varna því að hestinum hlekktist nokkuð á og átti við helti og meiðslum og hrossasótt, stroki og stuldi af öðrum. En hvort þetta er heldur svona illa gerður rúnastafurinn hagall eða galdrastafur skal ég láta ósagt.

Þá get ég þessu næst kvennagaldurs. Það ræður að líkindum að hans hafi menn neytt er þeir vildu laða konu til ásta við sig. Fyrir honum var þessi formáli hafður:

„Risti ég þér
ása átta,
nauðir níu, o. s. frv.“

Annað og þriðja vísuorð bendir til þess að þar hafi aðeins staðið í rúnum tekið átta sinnum og í þriðja vísuorði tekið níu sinnum.

Þá er svefnþorn, það er svo gamall galdur að Sæmundar-Edda segir að Óðinn hafi stungið Sigurdrífu valkyrju þessum þorni þegar hún hafði fellt Hjálmgunnar konung svo að hún gat ekki vaknað. Svo lítur út sem rúnir hafi verið ristar á kvist eða blað og því stungið síðan annaðhvort í höfuðhár eða inn á brjóst þess sem svaf og gat sá með engu móti brugðið blundi fyrr en svefnþorninn var burt tekinn eða hann féll úr höfði hans eða fötum. Stafur sá sem hafður var til þessa galdurs var (sól) og skyldi hann margtakast, en ekki veit eg hvað oft.

Næst koma draumstafir; Grunnavíkur-Jón getur hvorki þess hvað marga eða hverja stafi skuli til þess hafa. Þessa stafi átti að rita á blað og leggja þá undir koddann sinn áður en maður færi að sofa til þess að mann dreymdi það sem maður vildi vita. Svo segja þeir sem séð hafa stafi þessa á galdrakverum að þeir séu 17 eða 18 að tölu og séu það ekki galdrastafir, „en dæmislíkastir einhvers konar villuletri, Peraletri eða Adamsletri“. Enn má sjá dæmi til rúnafylkinga fyrir aftan Buslubæn hina prentuðu aftast í niðurlagi hennar; þar koma fram 5 fylkingar rúnastafa auk þess sem sum handrit af Buslubæn hafa bandrúnir að niðurlagi sem þegar skal getið.

Til dæmis um það að heil orð og formálar hafi verið ritaðir með rúnastöfum færir Grunnavíkur-Jón formálann á móti vallgangi, og er hann þannig: „Jesus Christus sat. ser. mundum liberavit,“ og formálann til að vinna í kotru; hann er þannig: „Ólafr, Ólafr, Haraldr, Haraldr, Eirekr, Eirekr.“ Þenna formála átti sá sem vinna vildi að skrifa á blað og annaðhvort hafa á sér blaðið eða láta það undir kotruborðið ofan á lærinu á sér meðan hann tefldi og lesa þar að auki paternoster til heiðurs Ólafi konungi.