Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sálina fann hann hvergi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sálina fann hann hvergi

Á Kálfafellsstað í Suðursveit er sagt að í fyrndinni hafi búið sá prestur sem taldi sóknarfólki sínu trú um að hann eftir að hafa gjört bæn sína yfir dauðum mannslíkömum vissi gjörla hvört sálin hefði farið vel eður illa. Margir og vel flestir efuðu þessa sögu hans og meintu hann ljúga því sér til hróss og fordildar. En til að komast fyrir sannleikann tóku nokkrir bændur sig saman fyrir sunnan svonefndan Steinasand og létu út berast að kerling ein lægi aðframkomin og skömmu síðar fréttist dauði kerlingar, hvör án tafar var flutt samt kistulögð að kirkju að Kálfafellsstað, yfir hvörri prestur eftir vanda gjörir bæn sína, og þykir þeim hann vera að því helzt til lengi. En þegar henni var lokið spyrja þeir hann hvört þessi arma kellingin hafi nú farið vel eður illa. Það segist prestur ógjörla vita því hann taki ei feil í því að sæðið sé af sjó, en sálina finni hann hvörgi. Kom það þá upp að kerlingu hafði aldrei þvingað sótt né dauði, en í stað hennar höfðu þeir látið löngu í kistuna til að reyna hvört prestur vissi frekar en aðrir menn hvört sálir framliðinna væri fordæmdar eða ekki. Og upp frá þessu efaði enginn að prestur segði satt, og höfðu hann eftir það í mesta heiðri.