Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sálufélag Sæmundar

Úr Wikiheimild

Það hafði Sæmundur prestur heyrt í fornum spám að sér væri sálufélag ætlað með fjósamanni á Hólum, gjörði þar fyrir ferð sína til Hóla norður, leyndist í fjósið þá nautamaður var hey að taka, gekk bás frá bás og skar helsi af hverju nauti. Gengu þau so laus úr básunum. So kom nautamaður fram og sá hvað um var, bað guð hjálpa sér og mælti eigi stærri orð, bæsti so niður nautunum og gekk frá. Aftur gekk Sæmundur í básana, skar öll bönd sundur og sleppti öllu lausu. Nautamaður kom að og sá enn nú hvað um var að vera, bað guð því meir sér til hjálpar sem meira á gengi. Þá gaf Sæmundur sig í ljós og gladdist af sálufélaginu.

Missögn: Einhver hafði sagt Sæmundi að hann skyldi eiga sálufélag með fjósamanni á Hólum. Þenna vildi Sæmundur sjá, fór til Hóla og gjörði sig að tittlingi og sat á fjóshaugnum. Þar kom Jón Ögmundarson biskup og sá fuglinn, kvað hann undarleg augu hafa og öðrum ólík, gat til að vera mundi Sæmundur fróði. Fjósamaður blótaði fyrst mjög, las síðan fræði sín.