Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sæmundur og Líkaböng

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sæmundur og Líkaböng

Sæmundur lærði í Hólaskóla. Þar átti hann marga öfundarmenn og vildu margir af skólabræðrum hans að hann yrði fyrir einhverri hneisu. Einu sinni bar svo við að klukkan mikla Líkaböng féll niður og sáu menn ekki ráð til að koma henni upp aftur á rambhaldann. Vildi þá skólameistarinn gjöra mannsöfnuð til að festa upp klukkuna. Sæmundur heyrði það og sagði að það gæti einn maður gjört. Það heyrðu öfundarmenn hans og vildu nú láta hann verða sér til minnkunar. Hertu þeir nú á honum svo hann gekkst undir að koma upp klukkunni aleinn. Lofuðu þeir honum kaupi fyrir ef hann yrði búinn að koma klukkunni upp á ákveðnum degi, en ella skyldi hann skömm af hafa.

Nú leið svo fram að hinum ákveðna degi að ekki átti Sæmundur við klukkuna og gjörðu félagar hans mjög gys að þessu. Hann lét sem heyrði hann það ekki. Daginn fyrir hinn ákveðna dag kallaði skólameistarinn Sæmund fyrir sig og spurði hvort hann vissi nokkurt ráð til að efna loforð sitt. Sæmundur lét lítið yfir því og fór burt.

Um kvöldið var myrkt mjög. Um nóttina fer Sæmundur út, en um morguninn er hann í rúmi sínu. Var þá klukkan upp komin um morguninn og vissi enginn hvernig Sæmundur hefði orkað slíku. En hann sagði engum neitt um það annað en að hann hefði um nóttina farið út í fjós og látið moð í meis.