Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Séra Magnús og séra Illugi (2)

Úr Wikiheimild

So hafa nokkrir minnugir menn frá sagt sem lifðu meiri hlut 18. aldar þá er Magnús prófastur Pétursson hafði Kirkjubæjarklausturþing og bjó á Hörgslandi. Var hann talinn margfróður, en mjög vandverkur að allri embættisfærslu sinni hvar af leiddi að hann var mjög vandlátur í sínu prófastsdæmi um siðferði og embættisfærslu þeirra. Hönum samtíða var prestur sá á Kálfafelli í Fljótshverfi er Illugi hét, fjölkunnugur mjög og var því almennt nefndur Galdra-Illugi og beitti fjölkynngi sínu við hvurn sem ekki gerði ettir hans skapi sem sagan sýnir.

Það var eitt sinn að Illugi hélt kaupamann. Hann var á sláttuteig með öðru fólki þar sem ei sást til þess frá bæ. Eitt sinn tekur kaupamaður til orða við vinnufólkið hvurju valdi það taki sér aldrei hvíld með so ströngu erfiði allan dag til enda. Einn maður svarar hönum: „Við þorum það ekki.“ Kaupamaður spyr hvurju því valdi. Þá svarar einhvur: „Sér þú ekki hvar Illugi stendur á leitinu?“ Kaupamaður leit þá til og sá hvar Illugi stóð, og gaf sér fátt um þennan dag. Næsta dag eftir þá fólk var komið á sláttuteig og nokkuð var liðið á dag mælir kaupamaður sömu orðum og daginn áður að bezt muni vera að taka sér litla hvíld. Anzar hönum þá einhvur: „Sér þú ei Illuga á leitinu?“ Kaupamaður lítur til og mælir: „Gjörla má ég það prófa hvort Illugi sé þar,“ kastar orfinu og tekur á rás, hvarf hönum þá strax Illugi, hélt hann þá áfram og til bæjar. Þegar hann kemur heim að bænum þá sér hann kirkjuna opna, hann gekk strax þangað; var þar þá Illugi fyrir að ganga um gólf. Ræðst kaupamaður strax á hann og snarar hönum undir og rekur hnefann á nasir honum, tók hálsklútinn af Illuga og þurrkaði nasablóðinu í hálsklútinn og braut hann so saman og stakk í vasa sinn og gekk síðan til vinnu sinnar og sagði fólkinu að hvíla sig eftir þörfum, enda sást Illugi aldrei framar á leitinu og vítti ei framar um verk það sumar. En sagt er að hann hafi aldrei getað hefnt þess á kaupamanninum nema svarað hönum fullu sumarkaupi sem hann setti upp á.

Margar skráveifur gerði hann sóknarmönnum sínum með fjölkynngi sínu og varð af því almennt illa þokkaður. Þetta barst til prófasts séra Magnúsar Péturssonar ásamt með fleiri óguðlegri aðferð hans í kristilegri þjónustugjörð kirkjunnar hvar af leiddi að séra Magnús gerði sér ferð til hans og veitti hönum heimuglega aðvörun hvurju Illugi tók illa. Er þá mælt að prófastur hafi heitið hönum embættistöpum ef hann bætti ekki ráð sitt. Hét Illugi engu nema illu sem hann endi því margar galdraglettingar gjörði hann síðan. Nokkru síðar bar so til að Illugi var missáttur við einn sóknarmann sinn sem hann gat aldrei yfirstigið með gjörningum sínum. Eitt sinn fór þessi maður með öðrum til altaris. Er þá sagt að Illugi hafi hleypt eitri í kaleikinn, en þá maðurinn hafði tekið það til sín lýsti hann Illuga banamann sinn og dó bráðlega. Þetta mál var sótt á hendur Illuga og dæmdi séra Magnús prófastur hann frá kjól og kalli. Nú hugsaði Illugi sér að sita þrásetu á Kálfafelli so lengi sem hann ætlaði sér, en fæstir almúgamenn voguðu að bera Illuga út á móti vilja hans vegna fjölkynngis. Vita menn ei hvort séra Magnús hafi fengið sér til aðstoðar að bera Illuga út Þorleif sýslumann þáverandi á Hlíðarenda í Rangárvallasýslu[1] eða hönum hafi verið skikkað það af biskupi, en til að bera Illuga út ferðaðist Þorleifur sýslumaður austur á Síðu og fekk sér til aðstoðar mann þann er Þorleifur hét og var kallaður Ferða-Þorleifur. Hann var álitinn fjölkunnugur mjög. Síðan riðu þeir til Kálfafells og setti Þorleifur sýslumaður tjald sitt utan garðs. Fór þá Ferða-Þorleifur að hefta hesta þeirra. Urðu þá hnappheldur fastar við hendur hönum; skyrpti hann þá í lófa sína og urðu þær þá lausar. Að því búnu gekk hann heim til tjalds síns. Sýslumaður hafði á meðan á heftingunni stóð gengið inn í tjald sitt, lagt sig niður, en þegar Ferða-Þorleifur kom heim að tjaldi sá hann nafna sinn hálfan dreginn út úr tjaldi frávita með froðufalli. Skyrpti þá Ferða-Þorleifur í andlit hönum og mælti þessum orðum: „Lítið stoðar þig finnski galdurinn.“ Nú vitkaðist þá sýslumaður so ei sakaði og sváfu þeir af um nóttina. Strax að næsta morgni var séra Magnús kominn. Skiptu þeir þá með sér störfum soleiðis að séra Magnús skyldi bera allar eigur Illuga út á hlað, Ferða-Þorleifur að færa þær út fyrir túngarð; þar tók Þorleifur sýslumaður við því og afhendi það tilkvöddum sóknarmönnum sem áttu að flytja það úr landareign Kálfafells.

Nú er að segja frá Illuga þegar [hann] kom öngri sinni kunnáttu við móti þessum mönnum, fór síðan norðrí land því þar átti hann dóttur gifta ágætum manni vel efnugum og unntust þau mjög. Sagt er hún hafi verið lík föður sínum að því að vera margfróð. Settist Illugi þar að. Er það sagt að hann hafi margar glettingar gert séra Magnúsi meðan Illugi var uppi, og var sagt að hann hefði ekki gleymt þessum fjandskap þó hann dæði. Nú er það til að taka þá Illugi var hjá dóttur sinni að hún bar mat fyrir hann og mann sinn. Það var fiskur og smjör. Reiddist þá Illugi er hann sá fæðuna, kvað það vera smán að bera á borð þvílíkt léttmeti [fyrir] jafngöfugan mann sem hann væri. Þessu gegndi bóndi með siðsamlegum orðum að maður mætti þakka fyrir ef hann hefði alltaf nóg af slíku. Við það reiddist Illugi enn meir og réð hönum bana með forneskju sinni. Í þessum svifum kemur dóttur Illuga inn og sér hvað í hefur gjörzt í lífláti mannsins sem henni féllst so mikið um að hún hikar sér ekki við að taka til kunnáttu sinnar og láta föður sinn fara sömu förina og lét þar Illugi líf sitt fyrir fjölkynngi hennar.

Eftir þetta veitti hann mjög miklar ásóknir séra Magnúsi og einkanlega konu hans, og hafa margar sögur frá þeim farið sem mér eru gleymdar. Þess má síðast geta að séra Magnús skipaði öllu fólki sínu að ganga til hvílu um aftan og gjörðu það allir sem hann bauð. Förukarl nokkur hafði beðizt gistingar um daginn, hafði hann verið að flytja hest sinn á meðan fólkið var að hátta. Kom þá karl inn í bæjardyrnar. Var þá séra Magnús þar fyrir og ávarpaði hart og sagði: „Hvað viltu? Varaðu þig.“ Kall brást drengilega við og segir: „Ég hræddist ekki Illuga í lífinu og því síður dauðan,“ og gekk inn. Þá er sagt að séra Magnús hafi verið að koma Illuga fyrir niðrí bæjargólfið og er sagt að séra Magnús hafi sagt að hann mundi vart hafa verið einhlítur að koma Illuga fyrir ef hann hefði ei hlotið aðstoðar karlsins því Illugi hefði verið hamramasti óvættur sem hann hefði þekkt. – Og endar so þessi saga.

  1. Þorleifur (um 1581-1652) var Magnússon prúða Jónssonar.