Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Séra Páll í Selárdal og ræningjaskipið

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Séra Páll í Selárdal og ræningjaskipið

Þegar síra Páll Björnsson hinn lærði var í Selárdal á 17. öld († c 1702)[1] sást fljóta fyrir landi skúta ein með svörtum seglum og stóð alþýðu manna geigur af og hugði ránsmenn vera. Prestur lét skjóta sér á báti fram til þeirra og mælti við þá á tyrknesku eða öðru austurlenzku tungumáli og latti þá að fara þar á land, kvað þar vera fyrir illþýði harðfengilegt og galdramenn framvísa og lét þeim hvergi óhætt. Þeim þótti mesta furða er klerkur kunni að mæla á þeirra tungu og sæmdu hann gjöfum svo miklum að prestur kvað svara mundi árstekjum af Selárdalskalli, en hann lét þá fá naut og sauði í staðinn. En ræningjarnir lögðu trúnað á sagnir hans og fóru að skömmu bragði burt þaðan.

  1. Páll dó 1706.