Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Saltkjötskirnan

Úr Wikiheimild

Einu sinni sem oftar komu vermenn að Vogsósum til Eiríks prests eftir það að vinnumenn hans voru farnir til sjóar. Saltkjötskirna hafði gleymzt eftir í Vogsósum sem einn af vinnumönnum prests hafði átt að hafa með sér. Eiríkur biður nú einn af ferðamönnunum að reiða fyrir sig kirnuna. Hann gjörir það, tekur kirnuna, bindur hana ofan á milli á hestinn sinn og fer á stað með lagsmönnum sínum. Hann var aftastur í lestinni og hugsar með sér að það sé jafngott þó hann skoði í kirnuna. Tekur hann þá af henni lokið, nær upp hníf úr vasa sínum og sker sér bita, en kemur honum ekki upp í sig; því stundum varð hnífurinn fastur við kirnuna, stundum hendin við hnífinn. Rekur hann svo hestinn og gengur sjálfur með honum og er alltaf að reyna að losa sig þangað til hann er kominn aftur á hlaðið á Vogsósum óafvitandi. Stóð þá prestur úti og sagði: „Þú ert þá svona gjörður heillin. Gjörðu þetta aldrei framar heillin. Vittu að það er frá honum Eiríki gamla og far þú nú leiðar þinnar.“