Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sauðir Höllu

Úr Wikiheimild

Á hausti einu var fjártaka mikil í kaupstað; var þá siður að fé allt var selt á fæti og sömdu kaupmenn um verðið við fjáreigendur eftir stærð fjárins og útliti. Halla átti margt gangandi fé og með því að kaupmenn buðu þá gott verð fyrir fé, þá leggur hún sjálf af stað með hundrað sauði gamla og rekur þá af stað til Húsavíkur sem er næstur verzlunarstaður Mývatnssveit. Undraði það engvan þótt Halla ræki margt fé í kaupstað, en hitt var að ágætum gjört hvað sauðir hennar vóru stórir og þriflegir.

Leið Höllu lá um í Saltvík á Tjörnesi og bjó þar þá Ólafur tóni fóstursonur Höllu. Hann var og haldinn fjölkunnugur og var sagt að Halla mundi hafa kennt honum fjölkynngi. Og er Halla kemur í Saltvík er Ólafur bóndi úti staddur; hann lítur yfir sauðahópinn og segir: „Smátt er féð þitt fóstra.“ Höllu verður hverft við og svarar: „Of margt hefi ég kennt þér strákur og haltu kjafti.“ Fór Halla svo leiðar sinnar og gekk henni vel úr hendi fjársalan; kaupmenn borguðu henni vel sauðina og þóktu þeir afbragðs vænir. Fór Halla svo heimleiðis aftur. En löngu seinna sagði Ólafur bóndi í Saltvík svo frá að það hefðu reyndar allt verið mýs sem Halla rak í kaupstaðinn að þessu sinni.