Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sigurður prestsson og bræður hans

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sigurður prestsson og bræður hans

Á prestsgarði einum í Húnavatnssýslu var prestur einn fyrir löngu síðan sem átti þrjá sonu er svo hétu: Jón og Ásmundur og Sigurður – og var hann þeirra nokkru yngstur. Allir vóru þeir bræður vel viti bornir og gjörvuglegir að sjá og þókti mönnum sem Sigurður væri þeirra mestur maður. En lítið hafði hann ástríki föður síns, en móðir hans hafði hann kæran.

Snemma vóru þeir bræður Jón og Ásmundur settir til mennta og tóku þeir sæmilegum framförum í lærdómi sínum, en Sigurður hafði mest þann starfa sem til þarfa búsins heyrði og var hann með lítilli iðn látinn stunda bókmenntir, og hafði hann það mest er móðir hans gat undirvísað honum og iðkaði hann það í frístundum sínum og tók undrunarlegum framförum. Síðan þegar þeir bræður höfðu aldur til vóru þeir settir í Hólaskóla bræður Jón og Ásmundur. Fór svo fram um þrjá vetur að þeir vóru í skóla í góðum metum, en heima vóru þeir á sumrum. En fjórða haustið þegar þeir ætluðu í skóla bað Sigurður óaflátanlega að lofa sér með þeim í skólann. Tók bæði faðir hans og bræður því heldur seinlega, en með fylgi móður hans varð það afráðið að hann skyldi fara. Vóru þeir þá allir búnir sem bezt að heiman og fenginn maður til fylgdar sem Jón var að nafni.

Svo þegar sá dagur kom er þeir skyldu að heiman fara bjuggust þeir á stað, kvöddu því næst foreldra sína og fóru svo leiðar sinnar og náðu um kvöldið upp í Svartárdalinn og gistu þar um nóttina. En um morguninn vóru þeir snemma á fótum og bjuggust að fara yfir skarðið; var veður þykkt og spáði fylgdarmaður illu veðri. En þeir bræður Jón og Ásmundur héldu valla mundi gjöra það veður að ekki yrði hraustum mönnum fært. „Endast mun ég á við ykkur,“ mælti þá Jón, „og þori ég að fara.“ Fóru þeir þá leiðar sinnar. Létu þeir bræður vel yfir sér og riðu þeir undan og mikinn upp dalinn og austur á skarðið, en Jón og Sigurður fóru síðar. Dimmdi þá veðrið og gjörði regn og því næst hríð, hið mesta kafald. En er veðrið versnaði fór smám saman að hægja ferðina á bræðrum og biðu þá lagsmanna sinna og vildu þá ekki fara lengur á undan og vildu jafnvel snúa aftur. Kvað þá fylgdarmaður að ekki hefði farið fjarri getu sinni um veðrið og líka dugnað þeirra. „En ekki tjáir nú aftur að snúa og náið þið seint til Hóla annað kveld ef nú skal aftur snúa,“ mælti hann, „og skal ég fara fyrir um stund.“ Fór hann þá fram hjá og svo undan lengi um daginn, en alltaf versnaði veðrið og gjörði hið mesta fjörráðsveður. Lúðist þá Jón að fara undan og kvaðst ei lengur vilja ráða ferðinni. Bauðst þá Sigurður til að fara fyrir. Vildu þá bræður hans setjast að, því þeim tók þá mjög að kólna svo þeir gátu ekki gengið og sem naumast setið á hestunum. En þeir Jón og Sigurður héldu þar mundi daufleg næturgisting og báðu þá herða sig að halda fram ferðinni. Fór svo Sigurður undan það sem eftir var af skarðinu, Vatnsskarði. En þegar halla fór ofan í sveitina var snjódýpið minna; hafði þar verið vatnsveður meira. Tóku þeir bræður þá ekki að geta setið á hestum sínum og ekki gátu þeir heldur gengið, og var þá ekki gott til ráða. Tóku þeir það þá ráða að reka hestana og gengu svo sinn með hverjum bræðra og studdu þá við á hestunum; komust þeir svo til byggða. Hafði verið regn í byggðinni um daginn svo snjólaust var niðri í Skagafirðinum. Tóku þeir Sigurður þá bræður af hestunum og leiddu þá sér við hönd. Komu þeir þá brátt að kotbæ einum og stóð bóndi úti; heilsaði hann þeim vinsamlega og spurði hvernin þeim hefði þókt veðrið um daginn. Þeir kváðu fært hafa verið, en þó í harðara lagi. Spurði bóndi þá hvert þeir vildu ekki gista hjá sér, þeim mundi þó vera mál að fá sér hvíld. Sigurður kvaðst taka til þakka vegna bræðra sinna því þeir væri orðnir lúnir; gátu þeir þá sem naumast staðið. Lét þá bóndi hirða hesta þeirra, en fylgdi þeim sjálfur inn í skála; var þar fyrir jungfrú forkunnar fögur með blá augu og mikið hár, og svo bjart og fagurt glansandi sem sól skini á hvítagull. Sagði bóndi henni fyrir að hjúkra gestum; setti hún þá staup á borð og hressti þá á hinu bezta víni. Vóru þá dregin af þeim vosklæði og fengin önnur þur. Síðan var matur á borð borinn og borðuðu þeir Jón og Sigurður, en hinir bræður höfðu litla matarlyst; vóru þeim þá búnar rekkjur og tóku þeir á sig náðir. En þeir Sigurður sátu og ræddu við bónda og hina fögru bóndadóttur og var ekki fjarri að þau Sigurður renndu augum saman. Síðan bjó hún þeim hinar beztu rekkjur og sváfu þeir vel um nóttina.

Um morguninn vóru þeir allir snemma á fótum; vóru þá bræður búnir að sofa úr sér lúann; var þá gott veður. Síðan er þeir vóru klæddir var þeim borinn góður morgunverður. Bjuggust þeir þá með hraða, því til Hóla skyldi um kvöldið. Gaf bóndadóttir þeim ríflega reisustaupið og Sigurði máske tvö. Kyssti hann þá hina hárabjörtu og bláeygu bóndadóttir. Síðan sneru þeir á leið fram lengra; kom þá bóndi þar á góðum hesti og bauð þeim föruneyti sitt og sagði sér kunnug vöð flest á vötnunum, „en hætt við þau hafi vaxið í gær í illviðrinu,“ mælti hann, „og eru þau oft illfær eftir þessi eður þvílík illviðri.“ Varð Sigurður glaður við þetta boð bónda og sagði hann velkominn til samferðar; héldu þeir svo leið sína. Vóru þeir nú glaðir og riðu frískan og þókti þeim gaman að hleypa gæðingunum spretti á rennsléttum vatnabökkunum og yfir Hólminn um daginn, og þó Héraðsvötnin væri nokkuð mikil hafði bóndi vöðin góð á þeim. Alla tíð fóru þeir á eftir Sigurður og bóndi, sem var roskinn maður, og töluðu sín á milli um marga hluti svo hinir heyrðu ekki, og fann Sigurður að hann var hinn mesti fræðimaður og þókti honum gott að tala við hann. En þegar þeir áttu stutt eftir heim á staðinn kvaðst bóndi mundi aftur hverfa. Stigu þeir þá af hestum sínum; vóru þá hinir undan riðnir. Bað þá bóndi Sigurð að koma til sín þegar hann færi úr skóla, og lofaði hann því, og hefðu sumir kunnað að segja að hann gerði það eins fyrir sjálfan sig. Líka sagðist bóndi mundi finna hann um veturinn – „því ég er vanur,“ mælti hann, „að fara út á Strönd á vetrum að afla mér fiskifangs og þá er ég vanur að koma við á staðnum. Sigurður bað hann svo gjöra og spurði hvað marga hesta hann mundi hafa í taumi. Karl sagðist hafa vilja fjóra. Skildu þeir þá með vináttu og náði Sigurður bræðrum sínum í því þeir riðu heim á staðinn. Vóru þeir á réttum tíma teknir í skólann og féll meistaranum brátt vel við Sigurð og gekk honum vel og fljótt að læra; leið svo fram á veturinn.

Svo um veturinn kom bóndi og ætlaði að fá sér skreið. Var þá Sigurður búinn að búa sig undir að fagna karli; hafði hann vel til í staupinu og var búinn að útvega skreiðina svo bóndi þurfti ekki lengra, heldur dvaldi hann þar um nokkra daga sér til gamans og skrafaði hann enn margt við Sigurð. Svo þegar bóndi hafði dvalið þar sem honum líkaði hélt hann heimleiðis og bað vel fyrir Sigurði, því hann hafði tekið svo vel af honum ómakið og verið svo vel farinn að víninu.

Nú kemur það næst til sögunnar að galdramaður einn var þar á staðnum. Höfðu þeir bræður Ásmundur og Jón oft verið að biðja hann að kenna sér galdur, en hann hafði aldrei tekið því og sagt þeir væri valla þeir menn að þeir væri færir um að læra þess háttar fræði, „því það er bezt,“ mælti hann, „að þeir menn er slíkt læra séu bæði kallmenni og hugrakkir.“ Nú héldu þeir á hinu sama að finna kallinn og biðja hann kenna sér galdurinn og var nú Sigurður altíð með þeim, en hann sagði hið sama. En eitt kveld var það að þeir vóru allir bræður hjá gamla manninum. Segir hann þeim þá að nú skuli hann reyna hvert þeir séu færir til að læra galdur; þeir vilja það gjarnan. „Skuluð þið fara út í kirkjugarð,“ mælti hann, „og munuð þið sjá pilt liggja þar á leiði og skuluð þið færa mér af honum skóinn, og ef þið getið þetta skal ég kenna ykkur galdurinn.“ Þeir héldu það mundi lítil mannraun. Gekk þá karlinn í næsta herbergi, en Jón fór út – því hann fór fyrst – og var úti niðmyrkur; samt fer Jón út í kirkjugarðinn. Sér hann þá hvar dólgur mikill liggur á leiði einu ærið draugslegur; sýndist honum hann vera í mannsmynd eins og í grárri úlpu og glóðaraugu svo herfileg að valla mátti móti sjá; gaut hann þeim á ýmsar hliðar næsta voveiflega, og allur var hann hið feiknlegasta ferlíki á að sjá og ískraði í honum. Þar með lá hann næsta ókyr svo sem hann þá og þegar ætlaði að stökkva á fætur. Varð þá Jón svo hræddur að hann hljóp sem snarast heim í bæinn. Kom þá kall þar og spyr hvert hann færi sér skóinn. Hinn kvað það fjarri að hann hefði vogað að fást við slíkan fjanda. „Þetta grunaði mig,“ mælti karl, „og ekki kenni ég þér galdur því það er þó lítilræði að sækja skóinn hjá því að læra galdur.“ Síðan fór Ásmundur og ætlaði að sækja skóinn og er þar stutt af að segja að fyrir honum fór eins og bróðir hans, því þegar karlinn fór að hrærast á leiðinu varð hann lafhræddur og hljóp inn og afsagði karlinn honum líka að kenna honum nokkuð.

Nú var Sigurður eftir og hugði nú að finna kallinn á leiðinu og nú fer hann út og sér þá hvar gráa ferlíkið liggur og er nú sem ljótastur og lét sem verst. Gekk þá Sigurður að honum og tekur til fótsins; brýzt hann þá um á hæl og hnakka, en Siggi sleppti ekki, heldur rak hann hnefann á hrygginn á kauða og spyr hann hvert hann ætli ekki að vera kyr. Sleit svo Sigurður af honum skóinn og færði karli. Sagði þá karl að honum skyldi hann kenna hvað hann vildi, „og var ég heppinn,“ mælti hann, „að þú drapst mig ekki með því heljarhöggi sem þú barðir mig, því ég var sá sem á leiðinu lá og hef ekki orðið fyrir þvílíku kallmenni sem þú ert, og ert þú vel hæfur til að læra hvað sem til er.“ Síðan undirvísaði hann Sigurði í því er hann vildi, og léði honum svo kver til að hafa hjá sér svo hann gæti iðkað þessa kúnst þegar hann hefði frítíma. Svo er ekki getið fleira yrði til tíðinda um veturinn.

En um vorið þegar þeir fóru úr skólanum var Sigurður ekki nema einu sæti neðar en bræður hans; svo hafði honum gengið vel lærdómurinn. Fóru þeir svo heim um vorið og gistu hjá sama bónda og um haustið. En er Sigurður sagði honum hvað vel sér hefði gengið að læra sagðist bóndi hafa svo séð til með honum að honum gengi svona vel. Svo er engin sögn af [þeim] bræðrum þau ár sem þeir vóru í skóla nema að Sigurður gisti altíð þegar hann fór í skóla hjá bóndanum vin sínum og jungfrúnni hinni fögru. Síðan þegar þeir vóru útlærðir fóru þeir Jón og Ásmundur bræður heim til föður síns, en Sigurður settist að hjá vin sínum til að æfa sig í galdralistinni, því bóndi var hinn mesti kunnáttumaður og kenndi hann Sigurði þar til hann var orðinn hinn færasti galdramaður.

En áður Sigurður færi heim sagði bóndi honum að bræður hans hefðu svo mikla öfund á honum að þeir hefðu í huga að svíkja hann, „og ætla þeir,“ mælti bóndi, „að byrla þér eitur í mat á gamlaárskvöld og fyrir þessa illsku þeirra ætla ég að senda þeim draug til að fyrirkoma þeim þá sömu nótt og láta illsku þeirra þannig koma þeim sjálfum í koll, en viljir þú hjálpa þeim þá máttu það, en það segi ég þér að magna ætla ég drauginn sem mest verður“. Síðan þar á eftir bjóst Sigurður heim. Líður svo tíðin fram að nýárinu, en á gamlaárskvöldið varaðist Sigurður að smakka nokkuð af mat. En þegar leið fram á kvöldið passaði Sigurður að vera hjá bræðrum sínum. Og þegar leið fram á nóttina fór þá að syfja og verða svo afllausir að þeir gátu valla verið á ferli. Fóru þá að heyrast úti dunur heldur hroðalegar; lögðust þá bræður sofandi út af upp í rúm, en Sigurður settist fyrir framan þá. Var þá stutt þess að bíða að maður kom inn í húsið sem þeir vóru í; gekk hann inn að Sigurði. Sigurður spyr hann hvað hann ætli. Hann segist ætla að finna bræður hans og biður Sigurð að fara frá sér. Sigurður segist ætla að biðja hann að gjöra lítið atvik fyrst fyrir sig, „sem er það,“ mælti hann, „að þú skalt fara suður í Indíaland og sækja þangað hundrað gullpeninga sem þar eru fólgnir á einum stað undir hellu og færa mér þá, en ef þú sér bræður mína hér þegar þú kemur aftur máttu gjöra við þá hvað þér gott þykir.“ Hvarf þá draugsi og var heldur ófrýnn, en Sigurður vakti bræður sína og segir þeim frá sendingunni og hinu að hann viti að þeir hafi ætlað að svíkja hann, „og megið þér nú ráða um tvo kosti, annar er sá að þið bíðið eftir draugnum og takið móti honum, annar er sá að þið látið mig ráða öllum kostum okkar í millum“. Kusu þeir heldur hann réði. Sagði hann þá að það væri gjörð sín að þeir skyldu fara strax í burtu, „og skuluð þið búa ykkur til ferðar strax í nótt með svo miklum hraða austur í land og flýta svo ferð ykkar að þið séuð komnir yfir þrjú stórvötn áður tvær sólir eru af himni og koma hingað aldrei meðan þið lifið, og skal faðir okkar greiða arf ykkar í peningum nú þegar, og er þó hóti betur gjört við ykkur en skyldi.“ Þorðu bræður þá ekki annað en láta sér þetta lynda og bjuggu sig í snatri, en faðir þeirra reiknaði út arfinn og greiddi sonum sínum, og þó hann hefði ekki nóga peninga fyrirliggjandi sendi hann til kunningja sinna og fékk að láni það sem til vantaði og var þetta allt með svo miklum flýtir að bræður vóru ferðbúnir fyrir dag og höfðu þeir til reiðar tvo eða þrjá gæðinga hver og komust farsællega svo langt sem þeim líkaði fyrir þriðju sól. Og í þeirri sveit sem þeir settust að giftust þeir og þóktu hinir gildustu menn.

En af Sigurði er það að segja að hann passaði að vera til taks þegar sendisveinn hans kæmi aftur, og beið hans í sama stað og þeir vóru á gamlaárskvöld. Kom þá draugsi þar og var heldur mæðulegur í bragði; samt kastaði hann peningunum til Sigurðar, spurði eftir bræðrum hans. „Ekki eru þeir nú hér,“ mælti Sigurður. Sannaði þá draugur það að hann sæi þá ekki og sagði það mundi nú líka gilda einu, „því ég er nú,“ mælti hann. „ekki orðinn til mikils fær, því þessi sendiför var hin mesta forsending því peningana vörðu átján djöflar hver öðrum verri viðureignar, og þurfti ég mig allan fram að leggja áður en ég gæti yfirbugað þá og er ég nú nær því að þrotum kominn.“ „Viltu þá ekki,“ mælti Sigurður, „fara til hvíldar þinnar aftur og setjast að og skipta þér ekki af bræðrum mínum?“ Hélt draugsi þá sér væri það næst úr því hann væri til lítils fær. Sagði Sigurður honum þá að fara þangað sem hann hefði verið tekinn og setjast að. Hvarf hann þá og sást aldrei síðan.

Sat nú Sigurður í góðum metum hjá föður sínum; fór þá karli að þykja meira varið í hann en fyrri. Var Sigurður þá á þeim missirum vígður til prests. Líka giftist hann á þeim tímum dóttur vinar síns hinni andlitshreinu og hárprúðu. Var hann svo hjá föður sínum meðan karl lifði og tók síðan við staðnum eftir hann og gjörðist hinn mesti klerkur.

Einhverju sinni þegar þeir fundust Sigurður og vinur hans og skröfuðu margt sem þeir vóru vanir, sagðist bóndi þá ætla að biðja hann bónar, „og er það svo lagað, svo sem þér er ljóst, að hver sá maður sem við galdur fæst hefur sér þénara eður draug sem hann hefur til sendiferða m. fl. En þeim sem nokkuð hirðir um sáluhjálp sína liggur mikið á því að vera búinn að koma draugsa fyrir áður en dauðinn kallar og segir: „Vopnin leggðu af, dári,“ en það er ekki altíð svo létt að koma þessum köllum fyrir þegar þeir eru búnir að þjóna manni svo lengi og er það ekki hægt með öðru móti en að senda þá forsending eða setja einhverja þá þraut fyrir þá sem þeim er ómögulegt að framkvæma. Hafa og sumir komið þeim svoleiðis fyrir að hafi þeir átt vin sem þeir hafa trúað hafa þeir beðið hann að setja djöfsa niður og sagt þeim fyrir hvernin skyldi taka móti draugsa og sent hann svo á tilteknum tíma. Hefur þá sá sem hann er sendur narrað hann annaðhvort í fjöðurstaf eða glas, sem hvort tveggja heldur öndum, og vafið síðan í líknarskæni og þannig komið þeim fyrir. Nú er svona lagað fyrir mér að ég hef lengi haft einn slíkan þénara til útréttinga minna sem er mjög magnaður. En af því nú sígur á seinni hluta ævi minnar og veit ég vel hvað langt ég á eftir ólifað, og eru það fimmtán ár, þá er það bón mín að þú komir þessum þénara mínum fyrir, og skal ég nú segja þér hvernin bezt er og hvernin þú skalt fara að því, og er það þannig: Þegar mér þykir tími kominn til að gjöra þetta gjöri ég þér það vitanlegt hvenær ég sendi þér drauginn; þarftu þá ekki annað en sitja í rúmi þínu og hlaða kringum þig guðsorðabókum, en búa þig út með að hafa hjá þér kristallsglas eða fjöðurstaf og skæni; bezt er kapalskæni. Nú þegar draugsi kemur að svona umbúnu kemst hann ekki að þér yfir bækurnar. Spyr þú hann þá hvað hann vilji og þá mun hann segjast eiga að drepa þig; skaltu þá biðja hann gjöra bón þína áður, sem sé að fara ofan í glasið að tarna, og seilist þú þá til hans með glasið og þá fer hann ofan í það, því slíku geta draugar ekki mótsagt. En þú bregður skæninu með flýtir ofan yfir það og utan um það, krossar það svo utan og geymir í vasa þínum þangað til næst að lík er jarðað, og þegar líkkistan er komin í gröfina þá kastar þú glasinu í gröfina um leið og þú kastar moldarrekunum á kistuna. Þetta er nú sú rétta og áreiðilegasta aðferð að setja niður drauga, svo hvernin sem á þeim stendur.“ Lofaði þá Sigurður karli að hann skyldi gjöra þessa bón hans og hefur víst ent það þó þess sé hér ekki framar getið.

Sigurður prestur varð gamall maður og þókti hinn vænsti maður og bezti prestur. Fóru þá skrif milli þeirra bræðra og var þá vinátta þeirra allgóð. En þó Sigurður væri hinn mesti og merkasti galdramaður á sinni tíð brúkaði hann kunnáttu sína engum til skaða, heldur miklu fremur öðrum til gagns. Því þegar hann með kunnáttu sinni vissi að einhver galdramaður ætlaði að gjöra illt með kúnst sinni, drepa menn eða þvíumlíkt, svo sem mjög tíðkaðist á þeim dögum, var þá oft að hann sneri aftur sendingum þeirra og lét það illa koma niður á sjálfum þeim. Fór hann þá stundum á gandreið, því hann reið gandi hvert er hann vildi, þangað sem hann vissi sendinga eða drauga var von, og var þar þá staddur eins og annar gestur og sneri svo til baka því er sent var. Varð hann af þessu kunnugur um allt land og báðu honum margir góðs, en aðrir vóru hræddir við hann því engum tjáði við hann illu að etja, og lögðust mikið af illgjörðir af göldrum á hans tíð því enginn vildi verða fyrir að Sigurður sneri sendingum sínum til baka. Deyði Sigurður svo loks í góðri elli og kunnum vér ekki þessa sögu lengri.