Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Silungsveiðin í Krókatjörn

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Silungsveiðin í Krókatjörn

Krókatjörn heitir tjörn ein nálægt Ferjukoti við Hvítá í Borgarfirði. Hún er afar djúp og kölluð tvíbytna. Það er mælt að kona ein hafi einhvern tíma búið í holti einu vestan til við tjörnina er heitir Tjarnarás. Hún átti tvo sonu. Þegar þeir voru á legg komnir veiddu þeir silung í tjörninni til matar sér. Einu sinni drukknuðu þeir báðir í tjörninni þá er [þeir] voru að veiðum. Syrgði móðir þeirra þá mjög og mælti svo um að engum skyldi framar heppnast veiði í tjörninni.

Það er sagt að einu sinni fór Ferjukotsbóndinn að veiða í Krókatjörn. Tók þá út ferjubátinn og brotnaði í spón og hefur síðan engi reynt að veiða silung í tjörn þessari því engi hefur viljað verða fyrir óhöppum fyrir það.