Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Skáneyjar-Grímur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Skáneyjar-Grímur

Svo bar til einn dag á meðan Guðmundur biskup var í Reykjaholti að þar kom bóndi einn úr dalnum. Sá hét Grímur og bjó á Skáney. Hann var gamall og forn í skapi. Sveinum biskups þótti Grímur undarlegur og gjörðu mjög háð að honum. Einn þeirra gjörði það þó mest. Sá maður var oflátungur mikill. Grímur segir við hann að ei muni þess langt að bíða að af honum fari oflætið og væri honum betra að láta sér skaplega. Maðurinn lét ekki á sér festa orð Gríms. En þegar biskup fór frá Reykjaholti fór hann niður dalinn. Var þá maður sá er mest gjörði háð að Grími að leika sér að því að setja spjót sitt fyrir brjóst sér og ríða svo. Biskup bað hann ei gjöra það, en hann fór ei að því og kvað sér ei hætt. En þá hnaut hestur hans og stakkst spjótið í gegnum hann. Féll hann þá dauður af hestinum. Biskup lét dysja hann þar við götuna og er sú dys við götuna skammt frá Kleppjárnsreykjum undir norðurendanum á Hamramelum. Það var lengi trú manna að engi mætti svo ríða hjá dysinni að ei legði hann í hana þrjá steina.