Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Skapadægur séra Þorláks á Ósi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Skapadægur séra Þorláks á Ósi

Almæli eru það að Þorlákur prófastur Þórarinsson hafi sagt það fyrir, löngu áður en fram kom, að hann deyja mundi í Hörgá, og jafnvel tilgreint vaðið á ánni hvar það yrði. Eitt sinn er hann hafði lokið embættisgjörð í kirkjunni á Möðruvöllum um sumartíma þá margt utansóknarfólk var við kirkjuna er svo sagt að þá gengi hann út eftir hlaðinu á Möðruvöllum og kringum marga hesta er þar stóðu bundnir við stjakann og væri þegjandi að líta eftir hestunum, en þetta var ekki venja hans. Menn stóðu nærri og sáu að hann gekk þar að rauðum fola fallegum, klappaði á brjóst honum og mælti: „Hérna kemurðu.“ Þeir vissu ekki því hann mælti svo til folans. Prófastur víkur sér síðan til þeirra og spyr hver folann eigi; það vissu þeir og heldur ekki. Biður hann þá leita eigandans að hann komi þar til tals við sig. Þetta gjöra þeir og kemur hann. Var hann langt að úr annari sókn. Biður prófastur að hann selji sér folann og fékkst það, og hefur prófastur hann heim með sér og hafði fyrir reiðhest síðan. Af þeim sama hesti drukknaði hann í Hörgá. Frá þeim atburði er svo sagt að þegar prófastur fór af stað heiman að frá sér frá Ósi hafi hann vandlegar en venja hans var kvatt konu sína og dóttur og allt heimilisfólkið og verið mjög hugsandi. Fylgdarmann hafði hann ríðandi með sér er reið undan veginn á Möðruvallanesi að ánni. Ekki er þess getið að hann mælti nokkuð við manninn á leiðinni, en þegar að ánni kom bað hann hann stjaldra við og fór af baki, lagðist niður á árbakkann og gjörði þar bæn sína litla stund, stóð svo upp, þerrði tár af augum og mælti til mannsins að nú skyldu þeir ríða ána. Áin var ekki mikil, vart í kvið á hestunum; en er maðurinn var kominn nær því af ánni leit hann til baka; stóð Rauður þá í miðri ánni með hnakkinn undir kviði sér, en prófasturinn flaut í vatninu. Nokkrir segja að fótur hans væri fastur í ístaðinu og því bæri straumur hann ekki frá hestinum. Maðurinn sneri til baka og náði líki prófastsins úr ánni og kenndi einkis lífsmarks með því. Það höfðu menn fyrir satt að hvorki hefði hesturinn dottið né rasað, heldur mundi allt í einu ómegi hafa yfirfallið prófastinn og hann liðið niður af hestinum. Nokkrir ætla að hnakkurinn hafi verið lausgyrtur og aftarlega á lagður og því snarazt um svo auðveldlega.