Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Skinnastaðaprestarnir og drengurinn
Skinnastaðaprestarnir og drengurinn
Það er sagt að í fyrndinni hafi búið prestar tveir á Skinnastöðum í Axarfirði, orðræmdir galdramenn og gjörðu mörgum mein með töfrum sínum. Einu sinni var það að þar kom umferðardrengur og bað um gisting og var það auðfengið og var hann þar um nóttina. Hann hafði heyrt af prestunum og hafði því á sér andvöku um nóttina. Hann svaf í rúmi fyrir framan dyr á húsi því er prestarnir sváfu í. Eftir vöku verður drengur var við að prestarnir fara ofan og eru æði lengi í burtu, þar til þeir koma aftur og fara inn í hús sitt; svo líður æði langur tími þangað til kemur inn hár maður. Drengur spyr hvurt hann ætli. „Að drepa þig,“ segir draugurinn. „Hvur sagði þér það?“ segir drengur. „Skinnastaðaprestarnir,“ segir draugsi. „Já,“ segir drengur, „ég er ekki svo mikill fyrir mér að þú ert ekki lengi að drepa mig en gjörðu samt fyrst eina bón mína; farðu út í hesthúsið og dreptu reiðhestana prestanna.“ Nú fer draugsi fram og er ekki lengi burtu; kemur svo inn aftur og segir: „Nú verð ég að drepa þig.“ „Já,“ segir drengur, „það er ekki lengi gjört; en farðu samt fyrst inn í húsið til prestanna og sæktu að þeim svo sem þú getur.“ Draugsi fer svo inn til þeirra. En þegar lítil stund er liðin fara prestarnir ofan og eru nokkuð lengi burtu og komu inn þegar komið var undir dag og fóru að sofa. Þegar farið er að birta fer drengur inn í hús til þeirra og býður þeim góðan dag og eru þeir þá að rumskast, en taka þó undir við hann glaðlega. Drengur segir: „Ég held ég megi fara að dragnast af stað.“ Þeir segja að honum liggi ekkert á, „og skaltu vera hér í dag“. Drengur segir: „Ég má víst þakka fyrir að fá að vera.“ Svo er hann þar um daginn í góðu yfirlæti, en hugsar þó eftir nóttinni áður. Er ekki að orðlengja að eftir vöku fara þeir ofan og eru enn lengur burtu en nóttina fyrir og koma samt loksins inn og ganga í hús sitt. En litlu á eftir þeim kemur inn kvenmaður og gengur að rúmi drengs. Hann segir: „Hvað ætlar þú að fara?“ Hún segir: „Að drepa þig.“ „Hvur sagði þér það?“ segir drengur. „Skinnastaðaprestarnir,“ segir stelpan. „Já, já,“ segir drengur, „þú getur nú gjört það hvenær sem þú vilt; en gjörðu samt fyrst eina bón mína: farðu út í fjósið og dreptu beztu kúna, en bittu hinar saman á hölunum.“ Hún fer og er ekki lengi í burtu, kemur aftur og segist vera búin að þessu. Drengur segir: „Farðu nú inn í húsið til prestanna og sæktu að þeim sem mest þú mátt.“ Hún fer inn til þeirra, en að lítilli stundu liðinni fara prestarnir ofan og koma ekki inn aftur fyrr en bjart var orðið og ganga inn í hús sitt. Eftir það fer drengur að klæða sig og fer inn í hús til prestanna; þá segja þeir við hann: „Þú kannt vissulega eitthvað fyrir þér.“ „Nei,“ segir drengur, „en ekki kalla ég ykkur kunnáttumenn mikla og er það ekki nema ykkur til skammar.“ „Já,“ segja þeir, „en getur þú ekki kennt okkur að vekja upp þann draug sem óvinnandi sé?“ Það segist drengur ekki geta. Þeir biðja hann þess betur. Drengur segir: „Ég vil ekki gjöra það þó ég geti, því þið gjörið eitthvað illt með því.“ Nei, þeir segjast ekki skuli gjöra það. „Með því kann ég að kenna ykkur það, en annars ekki,“ segir drengur; „meina ég að ekki sé gott að vinna óskírt ungabarn ef það er magnað vel.“
Nú er frá því að segja að á Grímsstöðum á Fjöllum bjó bóndi einn er var í óvild við Skinnastaðapresta og vildu þeir umfram allt fyrirkoma honum. En drengur sá er fyrr er nefndur var í kunningsskap við bónda þenna. Þegar drengur var búinn að kenna prestunum það er þá helzt girnti að vita segir hann: „Ég held mér sé nú mál að fara.“ Síðan kveður hann prestana og þakkar þeim fyrir næturgreiðann; heldur svo af stað og hefur svo langar dagleiðir sem hann getur þar til hann kemur að Grímsstöðum, og hittir hann þá svo á að bóndi er að reka heim fé sitt og hleypur í veg fyrir hann og spyr því hann reki svo snemma heim. Bóndi segir að það sæki eitthvað það að sér sem hann viti ekki hvað sé, „nema að það er frá Skinnastaðaprestum og get ég ekki verið eitt augnablik einn þegar fer að dimma“. Drengur biður hann að lofa sér að vera og var það fljótt í té. Fara þeir nú heim og þegar orðið er fulldimmt þá segir drengur bónda að fara fram. Það segist bóndi ekki geta með neinu móti. „Þú verður að gjöra það,“ segir drengur, „og þegar þú kemur fram í bæjardyrnar þá mun þér heyrast að eitthvað sé úti fyrir hurðinni; skaltu þá ljúka upp hurðinni til hálfs og rétta út hendina,“ og þrífa til ef að hann hitti nokkuð fyrir og kippa svo að sér hendinni; „en ég mun þá koma fram með ljós“. Bóndi fer og gjörir þetta. Kemur þá drengur að með ljós og heldur þá bóndi á hjúp af barni. Drengur tekur við hjúpnum, en barnið biður um hjúpinn sinn. Drengur segist ekki fá því hann nema það fari og sæki að Skinnastaðaprestum svo sem það geti. Fær drengur nú barninu hjúpinn og fer það af stað að því búnu.
Líður nú nokkur tími og er drengur hjá bónda. Einn dag kemur maður frá prestunum og var búinn að sprengja hestinn er hann reið, og kemur bréf til drengs frá prestunum og biðja þeir hann að koma sem hraðast og hjálpa sér frá draug þeim er hann hafði heim vísað til þeirra. Drengur segir hann megi víst drepa þá fyrir sér. Maðurinn fór með þetta. En daginn eftir fer drengur af stað og hefur stuttar dagleiðir þar til hann kemur að Skinnastöðum. Eru þá prestarnir komnir í rúmið. Nú lætur drengur þá sverja sér eið að því að þeir legðu niður allan galdur, og tekur hann að því búnu barnsdrauginn og gengur frá honum svo á honum bar ekki framar. Fer hann svo aftur að Grímsstöðum og gaf bóndi honum dóttur sína og varð hann þar merkur bóndi, og er frá þeim mikil ætt komin. – Lýkur svo þessari sögu. Endir.