Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Skipsformáli

Úr Wikiheimild

Vér skulum syngja Paternoster almáttugum guði til lofs og dýrðar, oss til byrjar og velferðar. Guð faðir, sonur og heilagur andi sjái og signi, leiði og líti unga menn og gamla, ferð og farkosti, stafn og stýri, árar og austurker, þóttur og þiljur, og allur vor reiði vinnist eftir vilja drottins með heillri heimkomu og höfninni beztri, þar á land að leggja sem vér kjósum á. Heilagur kross yfir skipi voru, Ólafur kóngur stýri, gefi oss byr og blíðan sjó. Það veiti oss vor lausnari og hennar blíðubæn, tignaðrar Maríu bæn, allt það gott vér mælum eða hugsum almáttugum guði til lofs og dýrðar, en oss til byrjar og velferðar. Vér skulum biðja fyrir þeim mönnum sem sitt líf hafa látið í útlandshöfum og í Jórsalahöfum og öllum þeim höfum sem kristnir menn plaga yfir að sigla. Njóti skip skriðar, en sál mín eilífs friðar. Verði þessi formáli endur, vér séum allir guði sendir, þessa heims gift og gáfu, en annars heims eilífri sælu. Pater noster – amann, syngi hvör eð kann.

Þennan skipsformála skulu norskir til forna brúkað hafa.