Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Skrifarinn og kona herramannsins

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Skrifarinn og kona herramannsins

Það er sagt að það hafi eitt sinn verið einn ríkur herramaður; hann átti fjöldamarga búgarða. Hann hafði ævinlega skrifara, en þeir hvurfu um hvur jól. Þá var herramaður vanur að fara að heiman í jólaveizlu til vina sinna so það var komið svo fyrir hönum að hann fekk öngvan til að vera hjá sér sem skrifara.

Einu sinni er herramaður að ganga úti. Honum mætir þá einn fátækur stúdent, og herramaður biður hann að fara til sín fyrir skrifara, en stúdentinn segir það þyki ekki gott fyrir þá sem vilji lifa að vera hjá hönum því þeir hverfi allir, en hann segist vera fátækur, en þó ekki langa til að vera drepinn. Herramaður segist skuli láta hann eiga eins og sig ef hann gjöri það; svo það verður úr að hann fer til hans.

Nú liðu fram stundir að ekki bar til tíðinda. Herramanni líkar mikið vel við þennan sinn nýja skrifara svo að hann vill fyrir öngvan mun missa hann. Þegar kemur að næstu jólum þá biður herramaður skrifara að fara með sér því hann þori ekki að hann sé heima eins og hinir vóru vanir að vera. Skrifarinn segist hafa svo mikið að gjöra að hann segist hvurgi mega fara, svo það verður, hvurnin sem að herramaður biður hann að fara, að hann fer hvurgi. Svo býr herramaður sig á stað og kveður skrifara og óskar þeir sjáist aftur heilir á hófi. Þegar herramaður er farinn sezt skrifari niður og er að skrifa fram á nótt. Þá fær hann orð frá herramannsfrúnni að hann er boðaður á hennar fund, en hann fer hvurgi. Eftir lítinn tíma kemur hún sjálf og biður hann að koma og sjá sýn sem að sé á loftinu. Hann varast það ekki og gengur út, en þegar hann kemur út slær hún á hann beizli og leggur á hann söðul og ríður á stað út í myrkrið, og svo ríður hún að hönum finnst hann ætli að springa af mæði, þangað til að hún kemur að einu húsi; þar stígur hún af baki og bindur hann, gengur síðan að húsinu og klappar upp á. Þar koma margir karlmenn út er tóku mikið vinsamlega á móti henni; en þeir spyrja hana því hún komi svo seint, en hún sagði sér hefði gengið illa að fá sér hest. En skrifarinn hugsar með sér að ríði hún sér heim aftur þá sprengi hún sig og svo hafi hún líklega farið með hina skrifarana; svo hann fer að reyna að nudda fram úr sér beizlið og getur það um síðir, fer svo síðan að glugga og sér þar marga karlmenn inni og að þeir eru að dansa við hana. Svo gengur þetta þangað til að hún segir sér sé mál að fara heim. Þá fer hann að dyrunum og bíður þar þangað til að þeir koma með hana. Síðan kveður hún þá alla með mörgum fögrum orðum og svo fer hún út, en hann slær á hana beizlinu og ríður heimleiðis hvatlega. Á leiðinni hittir hann einn hestajárnara. Hann biður hann að selja sér járn undir hrossið sitt. Hinn gjörir það, en þó með öfugu vegna þess að hátíðin sé yfirstandandi, en skrifarinn borgar hönum vel járnin og ríður svo heim til sín, tekur svo fram úr henni beizlið og gengur svo í herbergi sitt og fer að sofa. En um morguninn er hönum sagt að herramannskonan liggi sjúk.

Nú líður þangað til að herramaður kemur heim. Þá er hönum sagt að kona hans sé næstum dauð, en hann spyr hvurt að skrifari sinn sé heill á hófi. Hönum er sagt að það sé. Síðan gengur hann fyrst til hans og fagnar hönum vel og biður hann að ganga með sér til konunnar sinnar því það sé sagt hún sé að deyja. Svo ganga þeir þangað sem að hún er, og þegar þeir koma þar þá er breitt upp yfir hana svo skrifarinn segir hann skuli þreifa á lífæðinni og vita hvurnin hún slái. Herramaður gjörir það svo, en hönum verður annars hugar við er hann finnur það er skeifa undir báðum höndum á henni og eins undir fótunum. Skrifari segir hönum þá upp alla sögu og segist hafa fundið að hún hefði sprengt sig á heimleiðinni hefði hún riðið sér, og svona hafi hún farið með alla skrifara hans; svo hún er læknuð og rekin síðan á burt, en herramaður gefur skrifara allar sínar eigur eftir sinn dag svo hann varð vellríkur, og svo er ekki sagan lengri.