Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Skyggna stúlkan við Mývatn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Skyggna stúlkan við Mývatn

Við Mývatn var stúlka nokkur og var hún þríburi. Annað barnið sem með henni fæddist kom andvana, en hitt dó skömmu eftir fæðinguna; sjálf náði hún hér um bil tvítugsaldri. Í uppvexti sínum var hún mjög ógjörvuleg, fékk seint mál, og var það ætlun manna að hún mundi vera skiptingur. En þegar hún þroskaðist meira vitkaðist hún sem aðrir menn að öðru leyti en því að hún var alltaf hjárænuleg og jafnan óglaðvær. Fór þá að bera á því að hún sæi mannafylgjur öðrum framar svo hún gat sagt fyrir gestkomur; en er fram liðu stundir urðu svo mikil brögð að undursjónum hennar að svo virtist sem hún sæi í gegnum holt og hæðir sem síðar mun sýnt verða. Til vinnu var hún næsta ónýt og prjónaskapur var næstum eina verkið hennar. Hún átti vanda til að sitja heilum tímum saman eins og agndofa og hvessa augu í ýmsar áttir innan húss þótt aðrir sæju ekkert er tíðinda þætti vert.

Jón Einarsson bóndi í Reykjahlíð, maður Bjargar Jónsdóttur frá Völlum í Svarfaðardal, fór árið 1769 með Halldór son sinn vestur að Hólum í Hjaltadal til móðurbróður síns, dómkirkjuprests séra Halldórs Jónssonar, til að koma honum fyrir til kennslu. Þegar Jón skildi við séra Halldór var hann heill heilsu. En þegar pilturinn hafði verið þar skamma stund tók presturinn sótt sem leiddi hann til bana. En það er af stúlkunni að segja að fyrr en nokkur fregn um veikindi hans kæmi norður til Mývatns segir hún einn dag upp úr þurru: „Nú er séra Halldór á Hólum lagztur“ – og nokkrum dögum síðar segir hún enn upp úr þurru: „Mikið er séra Halldór þungt haldinn og er hann kominn að dauða.“ En að kvöldi sama dags segir hún: „Nú er séra Halldór andaður.“ Þessi orð stúlkunnar bárust til Reykjahlíðar til Bjargar systur séra Halldórs. Fékk þetta henni svo mikillar áhyggju af því hún hafði reynt að mikið rættust fyrirsagnir hennar að hún lagðist í rúmið þar til maður hennar kom heim úr ferð sinni og gat hughreyst hana með því að séra Halldór hefði verið heilbrigður þegar þeir skildu. En nokkru fyrir jól fékk hún bréf að vestan um viðskilnað bróður síns; fundu menn þá að spádómstími stúlkunnar og dánardægur séra Halldórs báru upp á sama dag.

Þessi sama stúlka sagði enn eitt sinn upp úr þurru: „Guð hjálpi manninum þeim arna.“ Og er menn spurðu hana hver sá væri svaraði hún: „Maður ætlaði vestur yfir fjall[1] fyrir vestan sveitina, en í stað þess að fara vestur yfir heiðina stefndi hann suður eftir henni og er nú kominn fram úr mannabyggð, og nú hrapaði hann ofan fyrir hengikletta og beinbrotnaði og höfuðið slóst af honum.“ En síðar fréttist að maður nokkur hefði ætlað vestur yfir sömu heiði, en honum reitt af eins og hún sagði.[2]

Hún sagði og eitt sinn upp úr þurru að hvalur væri að springa við sandinn. En sama dag var séra Jón Þorvarðarson sem þá var að læra hjá séra Ingjaldi í Múla róinn til fiskjar í góðu veðri og lognöldu. Tekur Jón þá til orða við hásetana og segir: „Hvaða boðaföll eru þar við sandinn?“ Hásetar segja það muni vera lognalda. En þegar þeir komu á móts við boða þessa sáu þeir hvar hvalur var að springa.

  1. Eftir lýsing stúlkunnar gat það ekki verið annað fjall en Vöðluheiði.
  2. Guðmundur biskup hafði sömu skyggni, sjá Biskupa sögur III, 393.