Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Snakkar

Úr Wikiheimild

Snakkar eða tilberar skyldu vera til búnir af mannsrifjum yfirklædd ullarvöfum. Þeir áttu [að] hafa stungizt á endum í kúahaga, farið upp á bak þeim og sogið þær. Að því búnu fóru þeir til unnustu sinnar heim og sögðu: „Fullur beli mamma.“ Kvað hún hafa sagt: „Láttu lossa sonur.“ Fór hann þá að spúa smjöri sem þó skyldi hafa verið sundurlaust og því sé svoleiðis smjör kallað tilberasmjör. En ef nokkur mætti þessum tilberum eða hindraði áform þeirra fóru þeir til móður sinnar heim og upp um kvið hennar og sprengdu hana. Til að varna skaða af þessum meinvættum báru mjaltakonur hönd í kross yfir malir kúa sinna eftir mjaltir. Ætíð urðu þær konur sem höfðu þénustu tilberanna að hafa þá við brjóst sér þá þær tóku sakramenti og spýta því niður í tilberann.