Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Stefna Sæmundar fróða

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Stefna Sæmundar fróða

Ég tek til vitnis voldugan minn kóng drottin og les ég þessi orð fyrir anda drottins á móti öllum þeim sem mína glötun vilja og með galdri grimma djöfla senda. Standi þessi sterkleg stefna sem á öðrum stálstólpa öllum mínum óvinum til blindni og bölvunar allrar, einnig sjálfum djöflinum til fordjörfunar. – Drottinn minn, gefðu afl og kraft orðum mínum sem sjálfs þíns þá þú skapaðir himin og jörð. – Þeir sem senda feiknafjanda, drauga eður djöfla fari brennandi í helvíti bölvað. Ef þú, bölvaður fjandans ár, kemur nærri mér eða mínum mein að gjöra þá stefni ég þér með þeim hörðustu ummælum í það díkið sem vellur af eldi og brennisteini í það neðsta undirdjúp helvítis svo þú þar eilíflega brennir, bólgnir og frjósir. Hati þig heimur, hæði þig sólin og allir englar drottins svo þú hrynjir og hrapir á hálku í helvíti og þig helvítis grimmir gaddnaglar gegnum stingi svo sem Jael Siserum í hel sló.

Ef þú nú viðstendur, illur ár, stundu lengur mér eða mínum mein að gjöra þá stefni ég þér í annað sinn við sæl sigurmerki drottins í neðsta helvíti sem forðum sukku Cori, Datan og Abiram til eilífra kvala. Ami þér og stuggi þér öll verk drottins og allar þessar ummæltar óskir á þér hríni nema þú, bölvaður, brennir þann sem þig, bölvaður, hingað sendi með heift grenjandi svo sundrist hold hans og í skrykkjum gangi; ef hann ei iðrast kvel þú hann á holdi og sálu svo sem þú verður sjálfur kvalinn að dómsdag drottins. Ef hann sendir þig hingað til mín héðan í frá eða nokkurra minna mér eða þeim mein að vinna eður angur eður óróa að gjöra í minnsta máta þá stefni ég þér í þriðja sinn með þeim dýrum drottins orðum að þú í nafni Jesú Christi og fyrir hans pínu samstundis sökkvir í það neðsta undirdjúp helvítis og hafi þá hvorugur ykkar frið meiri á himni og jörðu heldur en fordæmdir í höfuðfjandanum sjálfum í helvíti um eilíf dægur. Drottinn, still þú alla mína illviljendur og mótstöðumenn svo sem stilltir og stöðvaðir sjávarhafið fyrir þínum lærisveinum þá þeir ætluðu að forganga og þú frelsaðir þá kröftuglega. Banna þú neinum manni illt að gjöra svo sem þú bannaðir óhreinum anda himnaríki. Komi mér nú friður og fögnuður af heilögum anda og hjálpi mér heilagur andi drottins. Með þessum ummæltum og framtöluðum orðum skipa ég frá mér öllum öndum fjandans við allar fimm undir Jesú Christi að vitni almáttugs guðs og allra heilagra engla og himneskra hirðsveita. i nomine pa Aris filio A Spiritu glaneto. Allt lætur undan sönnum bænum og hreinu orði drottins. Undan þessu sama víki og frá mér líka allir illir andar, vondir menn og mínir óvinir hverjir helzt sem eru eður vera kunna. In nomine patri A filus A Sp. Sanctus. Amen.