Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sveinn spaki

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Sveinn spaki

Sveinn spaki, biskup í Skálholti 1466-1476, var kallaður forspár og framsýnn. Sumir ætluðu að hann kynni hrafnamál, en aðrir að það væri ekki hrafn heldur einhver andi í hrafnslíki, illur eða góður, sem hann hefði mök við.

Þegar hann var kirkjuprestur í Skálholti mörgum árum áður en hann varð biskup var hann sendur upp að Torfastöðum að messa þar og reið með honum piltur sem Erlendur hét Erlendsson frá Kolbeinsstöðum í Borgarfirði. Svo bar til þegar þeir komu í hólana fyrir sunnan Hrosshaga að harðviðrisbyl gjörði á þá með fjúki og lögðust þeir þar fyrir. Pilturinn fór þá að örvænta og sagði að hann mundi aldrei þaðan lífs komast. Prestur sagði að hann skyldi bera sig karlmannlega: „því hér eftir kemur gott og önnur verður þá okkar ævi þá ég er biskup í Skálholti, en þú eignast dóttur Þorvarðs ríka á Möðruvöllum og hústrúnnar þar.“ Erlendur svaraði: „Það veit ég verða má að þér verðið biskup í Skálholti, en það má aldrei verða að ég fái svo ríka og velborna stúlku jafnfátækur sem ég er.“ „Efa þú aldrei,“ segir prestur, „guðs gáfur, hans mildi og miskunn, því svo mun verða sem ég segi og það til merkis að þá þú ríður til (konu)kaupa mun slík helliskúr koma að menn munu varla þykjast muna slíka.“ Á móti morgni létti upp hríðinni og fóru þeir leiðar sinnar til Torfastaða.

Svo fór allt og framkom að Erlendur efldist og mannaðist og eignaðist Guðríði dóttur Þorvarðs, en Sveinn varð biskup. En þegar Þorvarður reið til (konu)kaupa kom svo mikil hvolfuskúr meðan þeir riðu heim að allt varð hríðvott, en áður var glatt sólskin er þeir komu undir túnið. Meðan Sveinn var prestur skírði hann barn einu sinni og sagði hann að því mætti ætla brækur, en ekki sokka því það mundi verða flysjungur. Barnið vóx upp, varð röskur maður og framdi tvö manndráp í tíð Stefáns biskups.

Hann sagði fyrir um vinda og veðráttufar, um lífsstundir manna og hvernig til mundi ganga í Skálholti eftir sinn dag, að hinn fyrsti biskup eftir sig mundi ekki ríkja lengi, annar þar eftir mundi hýsa vel staðinn og mest grjót til hans flytja, þriðji þar eftir mundi draga mestan grenivið að staðnum og kirkjunni, „og má með réttu,“ hafði hann sagt, „sá hinn fyrri kallast grjót-biskup“. „Þar eftir með hinum fjórða mun siðaskipti koma í land á öllu: messusöng og tíðagjörðum, hringingum og helgihöldum, og mun það alla tíma aukast meir með þeim fimmta og sjötta; [þá vil ég heldur vita son minn búa í Höfða hjá Skálholti eða væri fjósamaður í Skálholti en kirkjuprestur þar;] því Skálholt hefur aukizt og eflzt með herradæmi, en mun eyðast með eymd og vesalingsskap enda er þá þetta land komið undir útlendar þjóðir.“