Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sveitarkerlingin og langan

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sveitarkerlingin og langan

Sagt er að Jöklamenn sæju ofsjónum yfir þessari fjölfræði hans og vildu reyna hvað góður hann væri í fræði sinni og tækju sig því saman nokkrir bændur á Hellissandi (aðrir segja tólf galdramenn) til að véla prest eða reyna kunnáttu hans. Það var eitt sinn þegar sveitakerling ein dó að þeir grófu hana utangarðs án vitundar prests, en smíðuðu líkkistu og létu í hana stóra löngu, báru hana til kirkju og báðu prest að syngja yfir, og gerði hann það því hann varaðist ekki brögð þeirra; að því búnu spurðu þeir prest hvort aumingi sá mundi hafa vel farið svo hvumleið sem hún hefði verið hverjum manni í lífinu; varð hann þá ekki eins fljótur að svara eins og hann var vanur og kvað þá vísu þessa sem fjölda manna er kunn:

„Komið er hingað kistuhró
klungrað saman af ergi;
sæðið er af söltum sjó,
en sálina finn ég hvergi.“

Þá er sagt að hann legðist til svefns og hefði vísuna þannig þegar hann vaknaði:

„Er það langa yfrið mjó,
engin sveitakerling dó;
sæðið er af söltum sjó,
en sálina finn ég hvergi þó.“

Sagt er að sóknarmenn bæru brigður á sannsögli prests og heimtuðu að hann sýndi lönguna ella færi hann með markleysu; prestur svaraði fáu því hann vissi af fjölkynngi mundi viðhaft og þeir villa fyrir sér sem mest. Fór hann þá til með fóstursyni sínum eina nótt og vakti þar upp í þrem flokkum alla úr Ingjaldshólskirkjugarði; kom þá síðast upp draugur einn úr yzta horni garðsins, en aðrar sagnir segja að hann kæmi upp undan prédikunarstólnum [með bók] og rétti að presti, og sá prestur af henni hversu á stóð með lönguna; hann gat því sýnt hana þeim er í móti mæltu og sigraði hann mótstöðumenn sína þannig; en höfuðið af löngunni tóku galdramennirnir og höfðu það til mannskaðaveðra. Er mælt að þeir rifi það upp og sneru á þá leið sem þeir vildu að vindurinn kæmi frá, því jafnan stóð vindur í gin þess; er þá sagt að þeir sem glettust við hann flýðu allir burt af Sandi og þyrðu ekki að eiga undir tiltektum hans ef hann vildi hefna sín.