Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Tófur koma á Ísland

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Tófur koma á Ísland

Einu sinni var Íslendingur nokkur til veturvistar í Finnmörk. Gömul kona á bænum vildi eiga Íslendinginn, en hann vildi hana ekki og fór um vorið eftir heim til sín. Kerlingu líkaði það stórilla og ætlaði að hefna sín. Hún tók þá tófur tvær, aðra hvata og aðra blauða og las galdra yfir. Kemur hún svo tófunum í skip sem ætlaði til Íslands og sagði að tófurnar skyldu þar aukast og margfaldast og aldrei skyldi þeim verða útrýmt úr landinu. Þær skyldu og leggjast á þá dýrategund sem þær sæju fyrst á landinu. En kerling hugsaði að tófurnar mundu þar fyrst sjá menn og ætlaði að þær skyldu eyða þeim. En skipið sem tófurnar voru á kom við Austurland og hlupu tófurnar upp á nes það sem síðan heitir Melrakkanes í Álftafirði í Suður-Múlasýslu. Þar sáu þær sauðahóp og var það hið fyrsta dýrakyn sem fyrir þeim varð á landinu. Hafa þær síðan fjölgað mjög og dreifzt um landið og ofsækja sauðféð og drepa það niður.