Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Tarfurinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Tarfurinn

Einu sinni kom piltur til Eiríks og bað hann að kenna sér galdur. „Ég kann engan galdur heillin góð,“ segir Eiríkur, „en vera máttu í nótt.“ Maðurinn þáði það. Þetta var um vetur. Á vökunni kemur prestur til piltsins og biður hann að festa tarfi sínum sem hafi slitnað upp. Pilturinn játar því og fer út í fjósið. Þar var langur ranghali inn að ganga og lagði inn í hann daufa skímu. Hann heyrði að tarfurinn lét illa og bölvaði í ákefð. Ei að síður fer pilturinn inn. En þegar hann kemur inn í ranghalann sér hann tvo menn og stóð sinn hvorum megin við veggina í ranghalanum. Þeir voru höfuðlausir og börðust með blóðugum lungunum. Piltinum varð bilt við og hrökk út aftur. Hljóp hann inn til Eiríks og sagði að fjandinn væri laus í fjósinu hans og gæfi hann ekki um að ganga í greipar honum. Jæja, heillin góð,“ segir Eiríkur, „þá verður þú að fara burtu aftur á morgun.“

Annar maður kom seinna í sömu erindum til Eiríks, sem hann lagði sömu þraut fyrir. Sá var ekki smeykur og sagði þegar hann sá draugana: „Þið megið vera að ykkar vinnu piltar þó ég gangi snöggvast á milli ykkar.“ Batt hann svo tarfinn, og gekk vel. Þegar hann fór út aftur sá hann hvergi draugana. En þar sá hann trédrumba tvo sem draugainir höfðu verið. Þegar hann kom inn aftur sagði Eiríkur: „Batztu tarfinn heillin góð?“ „Ó, já, víst batt ég hann,“ segir hinn. „Sástu ekkert á leið þinni!“ segir Eiríkur. „Ekki get ég talið það,“ segir hinn. Eiríki líkaði þetta svo vel að hann tók manninn og kenndi honum.