Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Tilberar

Úr Wikiheimild

Svo er sagt að sumar konur hafi gjört sér tilbera eða snakk svo þær gæti safnað meira smjöri. Til þess höfðu þær mannsrif, vöfðu um það gráum flóka. Þetta höfðu þær í barmi sínum þegar þær gengu til altaris, og þegar þær þóttust vera að gjöra bæn sína eftir bergingu voru þær raunar undir klútnum að spýta víninu í þetta. Þá kom nokkurs konar líf í þetta. Það varð eins og uppblásinn belgur aflangur með sinn kjaft á hvorum enda. Þetta gátu þær sent hvurt þær vildu og var það helzt til að sjúga annara manna kýr. Það veltist áfram þangað til það kom að kúnni; þá hoppaði það upp á malir hennar og lagðist þar þversum og teygði sig svo mikið að það náði báðumegin niður fyrir kúna og saug svo sinn spena með hvorum kjafti. Tilberinn saug svo eina kú eftir aðra þangað til hann var orðinn fullur. Þá veltist hann heim til mömmu sinnar og sagði við hana (því tilberar töluðu): „Af munnagjörðina, mamma.“ Þá lét hún hann gubba í strokkinn sinn og varð það sem úr honum kom næstum allt að smjöri. En ef maður risti kross í það smjör varð það að „karmolum“ sem eins og hreyttust út um allt. Þær kýr sem tilberi saug urðu næstum geldar eftir.

Þórður Þorkelsson bróðir Jóns biskups Vídalíns sá einu sinni tilbera þar sem hann var á ferð. Hann hljóp til hans og ætlaði að taka hann, en náði honum ekki, svo veltist hann hart, en ekki þó harðara en svo að hann var alltaf skammt fyrir framan tærnar á Þórði. Þórður elti hann þar til hann flúði til mömmu sinnar og smaug upp undir pilsfaldinn hennar; það var meiri háttar kona. Þórður vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið og sagði við hana: „Ertú soddan ein kona? Það hafði ég aldrei ímyndað mér.“ Hún skammaðist sín og sagði ekkert, en Þórður sá svo um að hún átti ekki tilberann lengur.

Einu sinni dó rík kona sem átti tilbera. Hún hafði verið ekkja og átti eina dóttur sem tók allan arf eftir hana. Hún vildi ekki hafa neitt með tilberann að sýsla og hugsaði upp ráð til að skilja hann við sig. Hann kom til hennar þegar hún var að búa í strokkinn, og var fullur og sagði: „Af munnagjörðina, mamma. Þú munt erfa mig sem annað.“ „Það mun ég gjöra,“ segir hún, „en ekki þarf ég þín við til að gubba í strokkinn, en annað skaltu gjöra fyrir mig.“ „Hvað er það?“ spyr hann. „Þú skalt fara upp á afrétt,“ segir hún, „og tína í þrjár hrúgur öll lambaspörð sem þar eru.“ „Aldrei sendi móðir þín mig þvílíka forsendingu,“ segir hann, „en þó mun ég verða að hlýða.“ Og svo fór hann. Þegar menn leituðu afréttinn um haustið fundu þeir hrúgurnar, og lá tilberinn dauður á þeirri þriðju og var þá ekki annað en mannsrif vafið í gráan flóka. Héldu menn að honum hefði farið eins og öðru sem er af illum rökum að það þolir ekki þrítöluna.