Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Tilberinn í tunnunni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Tilberinn í tunnunni

Einu sinni lá kona á sæng einhverstaðar á Austfjörðum og sat kona einhver yfir henni, og lét barnssængurkonan hana matselda og ganga um allar eigur sínar, en bannaði henni einasta að líta ofan í tunnu sem stæði á hurðarbaki í búrinu. En ljósmóðirin var forvitin og leit ofan í tunnuna og sér hún þar þá tilbera lifandi niðri í tunnunni, og þá stekkur hann strax upp úr tunnunni og inn í baðstofu og til konunnar og stekkur upp á brjóst hennar og læsir sig þar og náðist þaðan ekki. Konan var síðan, þegar hún var komin á fætur, drepin með grimmilegum dauðdaga.