Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Tröllkonan í Skandadalsfjalli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Tröllkonan í Skandadalsfjalli

Það varð þessu næst að Kári var ásóttur af tröllkonu er heimkynni átti í fjöllunum út frá Selárdal; ætluðu menn híbýli hennar vera í helli í Skandadalsfjalli; tók hún sauðamann Kára hvern eftir annan; var það oft á ári hverju um jólatímann er svo bar við; áttu þau Kári og tröllkonan margt illt saman og vann Kári ekki á þangað til Kári eitt sinn nærri jólum tók það til ráðs að hann lagðist niður í rúm smalamanns síns, en það var í dyralofti, og breiddi á sig uxahúð. Þegar leið á nótt kom flagðið að rúminu og þreifaði um; er þá mælt hún hafi sagt:

„Þrýstinn um bóga,
er á skinnsokkum bokki,
hefur jólaskó dóli.“

Kári stökk þá upp og tókust þau fangbrögðum og bárust loks út úr bæjardyrum; fylgdust þá með dyragættir allar á herðum kerlingar og skildi þar með þeim; vildi flegðan ei framar fást við Kára og hljóp til sjóvar og hélt út með öllum Selárdalshlíðum; en Kári vildi ógjarnan hætta við svo búið og hljóp hann fram dalinn og þar yfir fjallið, en sú leið er skemmri til að ná yfir að híbýlum flagðsins, og var Kári þar kominn áður en hún og varði henni hellirinn. Var það nærri Skandadal er þau hittust við sæ niðri, og áður en þau tókust á spurði skessan Kára: „Hvað er í hendi, Árum-Kári?“ Hann svarar: „Lítil kexa í löngu skafti.“ Hún mælti: „Búlda mun bíta þótt hún sé lítil.“ Kári réðist þá að flagðinu, en hún hljóp undir högg hans, og tókst glíma heldur ómjúk í annað sinn og bárust þau víðs vegar um fjörugrjótið, og var lengi að Kári sá ei hvert sigra mundi; en svo lauk að flagðið féll fyrir Kára og vann hann þar á henni svo hún lét líf sitt og bylti Kári henni fram af skerjum þeim er þar liggja við land og heita þau sker síðan Byltusker.