Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Tyrkja-Gudda og Ólafur Skozki

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Tyrkja-Gudda og Ólafur skozki

Það bar við eitthvert sinn að förukarl sá er Ólafur hét og kallaður „skozki“ kom að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd til Tyrkja-Guddu og bað hana að lofa sér að vera því séra Hallgrímur var á engjum með heimamönnum sínum, og leyfði prestskonan honum það. Ólafur þessi þótti bæði grályndur og forn í skapi. Þegar hann var búinn að fá að vera bað hann Guddu að gefa sér skæði á fæturna, en hún neitaði honum um þau og sagðist ekki eiga þau til í eigu sinni. Ólafur varð þegar uppi með fáryrðum og bað þess að skæðin brynnu, þar eftir sem þau væri til í Saurbæ. En Gudda svaraði honum með þeirri ofstæki sem henni var eiginleg og sagði: „Það væri til vinnandi ef þú brynnir þá með.“ Þótti þar hafa sannazt hið fornkveðna: „Ekki veit á hverri stundu mælt er“ – því sömu nóttina brann allur bærinn í Saurbæ og mikið af búshlutum til kaldra kola, en fólk allt komst af nema Ólafur skozki; hann brann þar einn inni. Þetta var árið 1662, 15. dag ágústm. Til þessara fáryrða og forbæna Ólafs og Guddu er sagt að séra Hallgrímur líti í 9. versi í 28. Passíusálminum þar sem hann segir:

„Athugagjarn og orðvar sért,
einkum þegar þú reiður ert;
formæling illan finnur stað,
fást mega dæmin upp á það.“