Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Vei þér móðir mín; ég átti að verða biskup í Skálholti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Vei þér móðir mín; ég átti að verða biskup í Skálholti“

Einu sinni var lögmannsdóttir í Vaðlaþingi; hún var afbragðs fríð og vel að sér. Þegar hún var gjafvaxta báðu hennar margir ungir og álitlegir menn, en hún neitaði öllum því hún hafði ásett sér að lifa ógift. Einn af þeim sem báðu hennar og hún neitaði var ungur prestur, vænn maður og vel gáfaður. Það tók mjög á hann að hönum var synjað gjaforðsins svo hann hét að giftast ekki ef hann fengi hana ekki. Svona liðu nú árin og hún var komin á fertugsaldur; þá var hún til altaris sem venja hennar hafði verið, en sá atburður varð að þegar presturinn var að skrifta henni fannst henni svefnhöfgi koma yfir sig, þótti henni samt sem hún sæi um alla kirkjuna og henni þótti maður fríður og unglegur koma inn í kirkjuna og ganga að sér og segja: „Vei þér, móðir mín; ég átti að verða prestur.“ Síðan gekk hann út, en aftur gengur inn í kirkjuna falleg og blíðleg stúlka og gekk til hennar og sagði: „Vei þér, móðir mín; ég átti að verða prestkona.“ Eftir það hvarf hún út. Þar á eftir heyrði hún að hvatlega var gengið inn kirkjugólfið og þar að sem hún sat; var þetta ungur maður fríður og mikilmenni að sjá, hann var bæði blíðlegur og sorglegur, en talaði þó harðlega til hennar og sagði: „Vei þér, móðir mín; ég átti að verða biskup í Skálholti.“ Að því búnu gekk hann út og skellti hurðinni hart á eftir sér. Hrökk hún þá af þessum dvala, en var mjög hrædd og lémagna eftir sýn þessa. Gerði hún það þá sér til léttirs að hún sagði prestinum allt hvað hún hafði séð. Hann sagði henni að drottinn væri henni reiður fyrir það hún hefði aldrei viljað giftast og hefði nú sýnt henni börn þau sem hún hefði átt að eiga, og gæti hún ekki öðruvísi mýkt reiði hans en með því að giftast einhvurjum af þeim sem hún hefði neitað áður. Eftir þetta gat hún ekki um annað hugsað en um sýn þessa; hún réði það þá af að trúa orðum prestsins og gekk að eiga prestinn sem hún hafði áður neitað. Þau áttu saman þrjú börn, tvo drengi og eina stúlku, en skömmu eftir að hún hafði alið seinasta barnið andaðist hún. Fór það allt eins og hún hafði séð í vitraninni; stúlkan varð prestkona, annar drengurinn prestur, en annar biskup í Skálholti.