Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Viltu skyr Skeggi?

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Viltu skyr Skeggi?“

Í hörðu árunum átti einu sinni gamall maður hungraður en fjölkunnugur í vondu veðri [að] koma á bæ einn og bað um gisting, en fékk hana ekki. Rólaði hann samt inn á pallsnöfina og settist þar. Enginn talaði til hans né hann til annara. Hann horfði í gaupnir sér þar til menn heyra sagt: „Viltu skyr Skeggi?“ Þá sér fólkið að konan stendur upp og tekur föt og treður milli fóta sinna. Að stundu liðinni heyrist sagt: „Þó ég sé með krikunum kreist og tirjunum troðin þá segi ég samt: Viltu skyr Skeggi?“ Konan hagræddi sér til eins og hún gat, er, samt heyrði fólkið þessar spurningar nokkrum sinnum þangað til það fór að hlæja. Fór þá konan ofan og færði Skeggja fulla skyrskál. Fór þá fólkið að tala við hann, og átti þar hina beztu nótt.